Ólafur svarar gagnrýni um fyrri efasemdir

Ólafur Teitur Guðnason samskiptastjóri Carbfix.
Ólafur Teitur Guðnason samskiptastjóri Carbfix.

Ólafur Teitur Guðnason, samskiptastjóri Carbfix, skýrði afstöðu sína varðandi loftlagsmál skýra í færslu á Facebook síðu sinni í gær. Í frétt Mannlífs, sem birtist á sunnudaginn, voru gamlir pistlar Ólafs úr Viðskiptablaðinu rifjaðir upp, en ófáir þeirra fjölluðu um efasemdir og tortryggni gagnvart loftlagsvá, umhverfismálum og fjölmiðlaflutningi þar á.

Ólafur Teitur skrifaði vikulega pistla í Viðskiptablaðið á árunum 2004-2007, en þeir snéru einkum að greiningu og gagnrýni Ólafs á íslenskum fréttaflutningi.

Veit betur í dag

Í færslu á Facebook síðu sinni kveðst Ólafur Teitur vita betur í dag og að honum hafi orðið ljóst að fyrri afstaða hans væri ekki rétt fyrir allnokkrum árum. Í dag er hann þó ekki í nokkrum vafa.

„Það er alveg kristaltært í mínum huga að loftslagsváin er ein alvarlegasta ógnin sem mannkynið stendur frammi fyrir. Við höfum stefnt lífsskilyrðum til framtíðar í stórhættu og á okkur öllum hvílir þung ábyrgð um að bregðast hratt og afgerandi við.“

Blaðamaður Mannlífs, Svanur Már Snorrason, sagði í fréttinni að það væri „ögrandi“ að maður með slíkar skoðanir hefði verið ráðin til Carbfix.  

Ólafur Teitur segir það ekki trufla sig að þurfa að viðurkenna að hann hafi haft rangt fyrir sér á sínum tíma en að honum þyki miður að fyrri skoðanir hans kasti rýrð á það starf sem samstarfsfólk hans hjá Carbfix hafi unnið.

Færsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.


mbl.is