Hlýnar er líður á daginn

Spár eru eilítið á reiki með hitastigið.
Spár eru eilítið á reiki með hitastigið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Austan hvassviðri eða stormi er spáð með suðurströndinni í byrjun dags og snjókomu, og eru gular viðvaranir í gildi vegna þess.

Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að það muni hlýna þegar líður á daginn er hlýtt loft sækir til okkar suður úr höfum. Þá breytist úrkoman í slyddu eða rigningu. Hægari vindur verður annars staðar og lengst af úrkomulítið fyrir norðan.

Í kvöld dregur til tíðinda þegar úrkoman eykst umtalsvert á Austfjörðum og undir Vatnajökli með austanátt og talsverðri slyddu eða snjókomu.

Á morgun heldur úrkomuþunginn áfram og fram á föstudag lítur út fyrir mjög mikla úrkomu á því svæði.

Spár eru eilítið á reiki með hitastigið og þá hvort úrkoman breytist yfir í rigningu á einhverjum tímapunkti. Fólk er hvatt til að fylgjast vel með þróun spáa og útgáfu viðvarana.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert