„Margt sem gleður verkfræðiaugað“

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var sem betur fer ekki fengin til að hanna loftræstinguna, enda virkar hún,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, um nýju höfuðstöðvarnar sem voru kynntar fjölmiðlum í dag. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvað verkfræðingnum þætti um nýja mannvirkið en Lilja Björk er með BA-gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

„Ég er líka með gráðu í fjármálaverkfræði og ég nýti hana betur í húsnæðinu. Það er margt sem gleður verkfræðiaugað og auðvitað er maður svolítill nörd þegar kemur að þessu,“ segir hún.

Samspil ljóss og skugga spilar mikilvægt hlutverk í nýja Landsbankahúsinu.
Samspil ljóss og skugga spilar mikilvægt hlutverk í nýja Landsbankahúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flytja á starfsemi Landsbankans sem hefur farið fram í 12 húsum í Kvosinni yfir í nýju höfuðstöðvarnar, til viðbótar við starfsemi úr tveimur byggingum í Borgartúni. 

Nýju höfuðstöðvarnar munu hýsa um 600 til 650 starfsmenn en stefnt er að því að flutningum ljúki um miðjan maí. Þess ber að geta að þrátt fyrir að nýja Landsbankahúsið telji rúma 10 þúsund fermetra fækkar fermetrunum töluvert sem áður fóru undir þessa starfsemi bankans. 

„Við erum að fara í tæplega helming af þeim fermetrum sem við vorum áður en samt þrengir ekkert að. Þetta er bara nýtt miklu betur,“ segir Lilja Björk um nýja húsnæðið. 

Bankinn minnkar við sig

Bankastjórinn segir mikla tilhlökkun ríkja meðal starfsfólks. Áður hafi deildirnar verið frekar aflokaðar og minna um samskipti þeirra á milli en nýja húsnæðið bjóði upp á annað.

„Núna flæða deildirnar saman, þú færð þitt heimasvæði en við hliðina á er næsta deild, án þess að það séu skilrúm. Þetta er hugsunin með húsinu, við reynum að nýta sérþekkingu milli deilda, fólk hittist, því það er mikil samvinna þvert á bankann, ekki bara innan deilda. Þetta er lykilatriði,“ segir Lilja en bætir þó við að bankanum sé skylt að læsa inni ákveðna starfsemi bankans. Það eigi þó einungis við um starfsemi sem heyri undir þremur hópum.

500 skref á milli

Fyrsti starfsmannahópurinn flutti yfir í Reykjastræti sex þann 22. mars. Um 300 starfsmenn hafa nú flust yfir í nýju bygginguna en ekki er langt að fara en samkvæmt óformlegum mælingum eru þetta nákvæmlega 500 skref frá Landsbankahúsinu við Austurstræti.

Framkvæmdir standa þó enn yfir í nýja Landsbankahúsinu og hafa einungis tvær hæðir verið teknar í notkun, þ.e. 4. og 5. hæð. Gert er ráð fyrir að 2. og 3. hæð verði tilbúnar á næstu vikum og að jarðhæðin verði opnuð fyrir viðskiptavinum í júní.

„Við byrjuðum á því að flytja inn prufuhóp. Þá vorum við ekki alveg viss um hvernig þetta myndi fúnkera. Myndi allt virka, voru meiriháttar vankantar – en svo gekk þetta allt svo meiriháttar vel að við fórum fljótlega að flytja fleiri starfsmenn og flýttum aðeins áætluninni því þetta gekk allt frábærlega,“ segir Lilja.

Eins og áður sagði er stefnan sett á að opna jarðhæð hússins í júní. Að sögn Lilju er jákvæð breyting að fá viðskiptavinina nær höfuðstöðvunum. 

„Þú vilt alltaf vera nálægt viðskiptavinunum. Mig er búið að dreyma um það að sjá meira af starfsfólki, sjá meira af því hvað fólk er að gera. Það er ekki nógu oft sem að maður á leið inn í útibú en núna þá fær maður þetta nær sér. Það er draumur allra forstjóra að sjá eins mikið af viðskiptavinum og hægt er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert