Sjáðu nýjar höfuðstöðvar Landsbankans

Í nýjum höfuðstöðvum Landsbankans við Austurbakka sem telja um 10 þúsund fermetra, eru einkaskrifstofur hvergi að finna. Byggingin er opin, vinnurýmin fjölbreytt og dagsbirtan lýsir upp húsið í gegnum stóra þakglugga og glugga á útveggjum.

Húsið var tekið í gagnið undir lok síðasta mánaðar þegar fyrsti starfsmannahópurinn fluttist til. Áður var gert ráð fyrir að flutningar myndu hefjast í desember á síðasta ári en framkvæmdir hafa þó tafist og eru nú á lokametrunum. Í dag hafa 4. og 5. hæð verið teknar í notkun og 2. og 3. hæð verða tilbúnar á næstu vikum.

Í heildina hafa um 300 starfsmenn flust til frá því í mars og hafa flutningar gengið vel, að sögn Lilju Bjarkar Einarsdóttur bankastjóra. Stefnt er að því að ljúka við flutninga á næstu vikum en alls verða um 600 til 650 starfsmenn þar að störfum.

16.500 fermetrar

Hönnuðir nýju byggingarinnar eru norræna arkitektastofan C. F. Moller og Arkþing Nordic. Verkfræðihönnun var í höndum Eflu verkfræðistofu.

Húsið er um 16.500 fermetrar í heildina auk tæknirýma og bílakjallara sem á að nýtast öllu svæðinu. Þar af nýtir Landsbankinn rúmlega 10 þúsund fermetra undir sína starfsemi en íslenska ríkið á um 6 þúsund fermetra af byggingunni og mun nýta húsnæðið undir starfsemi utanríkisráðuneytisins og Listasafns Íslands.

Stuðlabergið áberandi

Hönnuðir fá innblástur úr íslensku klettalandslagi eins og sjá má á einkennandi klæðningu hússins en það er þakið um 3.300 fermetrum af stuðlabergi úr Hrepphólanámu í Hrunamannahreppi.

Á jarðhæðinni verður tekið á móti viðskiptavinum bankans þar sem þeir geta sótt ráðgjöf og fengið afgreiðslu. Þar verða þó einnig hraðbankar og önnur sjálfsafgreiðslutæki sem verða aðgengileg utan afgreiðslutíma bankans.

Á 2. til 5. hæð bankans verða vinnustöðvar starfsfólks með fram útveggjum. Vinnurýmin eru sameiginleg og eru flestir starfsmenn ekki með fasta vinnuaðstöðu. Í húsinu eru þó mörg lokuð fundarherbergi og næðisrými. Þá er gerður greinarmunur á opnu vinnurými og verkefnamiðuðu vinnurými.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá nýju höfuðstöðvarnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert