Hefðum getað skorað fleiri

Agla María Albertsdóttir og Arna Dís Arnþórsdóttir eigast við.
Agla María Albertsdóttir og Arna Dís Arnþórsdóttir eigast við. mbl.is/Óttar Geirsson

„Við létum boltann ganga vel í fyrri hálfleik og héldum honum svo það gekk það sem við lögðum upp með fyrir leik og hefðum getað skorað fleiri mörk ef eitthvað er,“ sagði Agla María Albertsdóttir, sem skoraði tvö mörk í 5:1 sigri Breiðabliks á Stjörnunni á Kópavogsvellinum í dag þegar leikið var í 4. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta.

Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik og það var ekki sama ákefðin í leikmönnum eftir hlé, frekar eins og verið væri að bíða eftir lokaflauti dómarans.  „Ef maður er fjórum mörkum yfir held ég að það sé ekki beint hægt að fara halda fengnum hlut en þegar lið er búið að fá svona mikið af mörkum á sig þá vill það alls ekki fá á sig enn fleiri mörk og Stjarnan gerði vel í sínum varnarleik.  Við hefðum auðvitað getað gert betur en þetta fór bara svona,“ sagði Agla María.

Breiðablik og Valur hafa unnið alla sína leiki í sumar en markatala Blika er þó betri en Agla María segir það sé liðinu ekki efst í huga. „Við förum alls ekki fram úr okkur.  Við sáum í leiknum á móti Tindastól að við hefðum auðveldlega getað endað í jafntefli.  Það er fullt af erfiðum leikjum í þessari deild og við vanmetum ekkert lið.  Tökum bara einn leik fyrir í einu og erum bara ánægðar með þennan sigur,“ bætti Agla María við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert