Reynir við Everest í annað sinn

Íslensk-kúberski Everest-farinn, Yandy Nunez Martinez.
Íslensk-kúberski Everest-farinn, Yandy Nunez Martinez. Ljósmynd/Facebook

Hinn íslensk-kúbverski Yandy Nunez Martinez reynir nú að klífa Everest-fjall í annað sinn. Hann er staddur í grunnbúðum Everest, en Halldóra Bjarkadóttir, eiginkona hans, segir að hann áætli að fara upp á topp í næsta mánuði.

Yandy lagði af stað frá Katmandú, höfuðborg Nepals, þann 8. apríl og var kominn í grunnbúðir Everest viku síðar. Fyrr í vikunni hélt hann á Lobuche-fjall og var kominn upp á topp á fimmtudaginn.

„Það er hluti af þessu að æfa sig á Lobuche til að aðlagast aðstæðum. Það er svo þunnt loft þarna og líkaminn þarf að venjast því. Hann var fljótari að toppa Lobuche núna heldur en fyrir tveimur árum,“ segir Halldóra í samtali við mbl.is.

„Honum líður mjög vel og aðstæður eru góðar.“

Yandy veifar bæði íslenska og kúbverska fánanum á toppi Lobuche-fjalls.
Yandy veifar bæði íslenska og kúbverska fánanum á toppi Lobuche-fjalls. Ljósmynd/Facebook

Beðið eftir tækifærinu

Að sögn Halldóru var óvenju kalt á leið upp Lobuche en Yandy hafi sem betur fer verið með auka úlpu í bakpokanum. Einhverjir í hópnum hafi þó ekki getað klárað ferðina vegna kuldans.

Yandy reyndi að klífa Everest í maí 2021 en komst ekki upp á topp þar sem hann smitaðist af kórónuveirunni. Hann hefði orðið sá fyrsti af kúbverskum uppruna til þess að toppa Everest, en á leið sinni náði hann að verða sá fyrsti til að komast í 7.000 metra hæð og ofar. Everest-fjall er 8.849 metra hátt.

Yandy er nú staddur í grunnbúðunum og mun hvíla sig í dag. Á næstu dögum verður farið í búðir eitt, tvö og þrjú og svo aftur niður í grunnbúðir. Því næst verður beðið eftir tækifærinu til að fara alla leið á toppinn, en það verður líklega í upphafi maímánaðar.

Yandy og kona hans, Halldóra Bjarkadóttir.
Yandy og kona hans, Halldóra Bjarkadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Tuttugu dagar til að ná toppnum

„Það er vanalega verið að leggja leiðina 4. til 5. maí. Þá fara sjerparnir að undirbúa, þannig að eftir 6. maí getur fólk farið að mjakast þarna upp og menn hafa rúma tuttugu daga til að toppa.“

Áætlað er að rúmlega 400 manns muni reyna að komast upp á topp í ár.

„Hann á flug heim 5. júní. Það tekur um það bil viku að fara aftur niður og svo þarf fólk að jafna sig áður en farið er í flug.“

Segist enn vera róleg

Spurð hvernig það sé að vita af eiginmanni sínum á Everest, segist Halldóra vera róleg enn sem komið er.

„Ég held að hann verði bara skynsamur og ef hann metur aðstæður hættulegar þá hætti hann við. Það er búið að ganga mjög vel hjá honum hingað til. Heilsan er góð og hann er líkamlega sterkur og á meðan það er hef ég ekki áhyggjur af honum. En það verður stressandi þegar síðasti spölurinn kemur.“

Yandy hefur klifið alla helstu tinda landsins, meðal annars Hvannadalshnjúk þar sem hann ákvað að hann skyldi klífa alla hæstu tinda heims. Árið 2019 kleif hann Mont Blanc í Frakklandi og síðar sama ár varð hann fyrsti Kúbverjinn til þess að klífa Elbrus í Rússlandi. Undir lok árs 2019 náði hann svo á topp Aconcagua-fjalls í Argentínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert