Íslenskur Everest-fari á gjörgæslu í Nepal

Yandy Nunez Martinez hefur áður sagt við mbl.is að hann …
Yandy Nunez Martinez hefur áður sagt við mbl.is að hann hafi kynnst fjallgöngum á Íslandi. Hann ákvað á Hvannadalshnjúk, hæsta tindi Íslands, að hann skyldi klífa Everest, hæsta tind heims. Ljósmynd/Aðsend

Íslensk-kúbverski Everest-farinn, Yandy Nunez Martinez, er á gjörgæslu í Nepal eftir að hafa smitast af kórónuveirunni á leið sinni á tind þessa hæsta fjalls heims. Halldóra Bjarkadóttir, kona Yandys, segir við mbl.is að hann hafi áður þurft súrefni og fengið blóðtappa í fæturna, en sé nú á batavegi. 

Yandy reyndi að klífa Everest-fjall í liðnum mánuði en komst ekki upp á topp vegna veikinda. Ekki var ljóst í fyrstu að um veirusmit væri að ræða og var hann sóttur í þyrlu á fjallið en við komuna á sjúkrahús í Nepal varð ljóst að um smit væri að ræða.

Hann hefði orðið sá fyrsti af kúbverskum uppruna til þess að toppa Everest, en á leið sinni náði hann að verða sá fyrsti til þess að komast í 7.000 metra hæð og ofar. Everest-fjall er 8.849 metra hátt. 

Yandy og kona hans, Halldóra Bjarkadóttir.
Yandy og kona hans, Halldóra Bjarkadóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Hann er smá svekktur að hafa ekki náð að toppa með félögum sínum í morgun en mjög þakklátur að vera heill á húfi og að hafa ekki verið kominn hærra á fjallið þegar hann veiktist,“ segir Halldóra við mbl.is, en Yandy var sóttur af þyrlu í búðir tvö á fjallinu. 

Tveir aðrir íslenskir Everest-farar smituðust af veirunni nýverið, þeir Heim­ir Fann­ar Hall­gríms­son og Sig­urður Bjarni Sveins­son, en þeir klifu Everest í þágu Umhyggju, styrktarfélags langveikra barna.

Allur að koma til

Yandy dvelur nú á sjúkrahúsi í Nepal og í gær hætti hann að þurfa súrefnisgjöf auk þess sem blóð hans er farið að þynnast á nýjan leik. Yandy fékk blóðtappa í báða fætur og annað lunga og fer í sneiðmyndatöku á morgun og á laugardag þar sem staða mála verður könnuð. 

Halldóra segir að eftir það verði hægt að áætla hvenær Yandy kemur heim til Íslands, en Halldóra mun þá fara út til Nepal og hjálpa honum við ferðina heim, þar sem ljóst er að hann muni vera í hjólastól enn um sinn. 


 

mbl.is