Toppaði loksins Everest

Ís­lensk-kúbverski fjallagarpurinn Yan­dy Núñez Mart­inez er fyrsti Kúbverjinn sem hefur …
Ís­lensk-kúbverski fjallagarpurinn Yan­dy Núñez Mart­inez er fyrsti Kúbverjinn sem hefur klifið hefur Everest-fjall. Samsett mynd

Ís­lensk-kúbverski fjallagarpurinn Yan­dy Núñez Mart­inez toppaði tind Everest-fjalls í dag. Hann er fyrsti Kúbverjinn til þess að ná upp að tindi fjallsins. Þetta staðfestir Halldóra Bjarkadóttir, eiginkona hans.

Um er að ræða aðra tilraun hans til þess að komast upp á tind fjallsins. Síðast þegar hann reyndi við tindinn, í júní árið 2021, þurfti að flytja hann á gjörgæslu í Nepal vegna þess að hann smitaðist af kórónuveirunni.

Ferðin hófst þann þann 8. apríl þegar hann lagði af stað frá Kat­mandú, höfuðborg Nepals, og var hann kom­inn í grunn­búðir Ev­erest viku síðar. 

„Þeir lögðu af stað í gærkvöldi til að fara upp á tindinn. Það gekk aðeins hægar en vonir stóð til,“ segir Halldóra í samtali við mbl.is. „En það var gott veður og þetta gekk rosa vel.“

Yandy á toppi Elbrus í Rússlandi, í 5.642 metra hæð, …
Yandy á toppi Elbrus í Rússlandi, í 5.642 metra hæð, með bæði íslenska og kúbverska fánann. Ljósmynd/Instagram

Týndi sjerpanum sínum

„Í gærmorgun lögðu þeir af stað úr þriðju búðum í fjórðu búðir. Það tók um það bil sex klukkustundir. Svo var hvíld í nokkra tíma,“ segir Halldóra. „Síðan lögðu þeir af stað upp á topp um 9 leytið í gærkvöldi að nepölskum tíma og voru komnir upp á topp um 10:30 að nepölskum tíma.“

„Það var aðeins erfiðara fyrir hann að komast niður þar sem hann týndi Sjerpanum sínum,“ segir hún en fjöldi Sjerpar vinna við leiðsögn á fjallinu.

„Þeir eru nú kominn niður í fjórðu búðir. Það eru allir farnir að sofa núna,“ segir hún. Hópurinn fari í fyrramálið niður í aðrar búðir og búast megi við því að hann verði kominn í grunnbúðirnar á föstudag. Halldóra segist vona að hann lendi á Íslandi eftir um það bil tíu daga.

Miklu auðveldara en seinast

„Þetta var miklu auðveldara en síðast,“ segir hún. „Honum hefur liðið alveg rosalega vel og allt hefur gengið vel.“

„Síðast var hann náttúrulega alveg fárveikur,“ segir Halldóra og bætir við að Yandy hafi verið afar stressaður fyrir ferðinni í ljósi þess að hann hafi smitast af kórónuveirunni síðast og þurft að liggja inni á nepölsku sjúkrahúsi í rúma fimmtíu daga. En Yandy er glaður að hann hafi ekki veikst í þetta skiptið.

„Það var áætlað að þeir skyldu toppa þann 5. maí en óveður skall á,“ segir Halldóra en þá hafði hópurinn þegar gert sér leið í þriðju búðir og þurft að snúa við. Þá hafi hópurinn farið alla leið niður í grunnbúðir og beðið af sér fimm daga óveður.

Kúbverjar stoltir af sínum manni

Martinez er núna fyrstur Kúbverja til þess að toppa fjallið.

„Ég fór frá Kúbu og sigraði heiminn,“ skrifar Yandy á Facebook eftir að hann komst upp á toppinn í morgun. Hann tileinkar ömmu sinni afrekið, Kúbu, öllum Kúbverjum. „Lifi hin frjálsa Kúba.“

Kúbverskir miðlar hafa margir greint frá afreki Yandys. „Hann náði því!“ segir í fyrirsögn fréttar hjá kúbverska dagblaðinu Directorio Cubano. Fleiri miðlar hafa greint frá því, til að mynda OnCuba og CubaNoticias.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert