Smitaðir af Covid á toppi Everest

Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson.
Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson. Ljósmynd/Aðsend

Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson voru smitaðir af kórónuveirunni þegar þeir náðu toppi Everest.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Umhyggju en þeir klifu fjallið í söfnunarátaki til styrktar samtökunum.

Þeir segjast hafa báðir fundið fyrir einkennum þegar þeir voru komnir í efstu búðir Everest. Á þessum tímapunkti var þó enginn möguleiki á að taka Covid-próf.

Þeir höfðu tekið slíkt próf sama dag og þeir fóru af stað á fjallið og þá var það neikvætt hjá þeim báðum.

„Það læddist að okkur sá grunur að við gætum hafa smitast af Covid 19 en þar sem okkur leið vel á þessum tíma töldum við ekki ástæðu til þess að breyta plönum enn vorum meðvitaðari og fylgdumst enn betur með heilsu hvor annars,“ segja þeir í tilkynningunni.

Ljósmynd/Aðsend

Á leiðinni niður tindinn fundu þeir báðir fyrir aukinni þreytu, hósta og óþægindum.

„Heimir átti fyrst erfitt niðurleiðar. Í búðum 2 vorum við báðir orðnir afar slappir af hóstaköstum, hausverkjum og annarri þreytu. Okkur grunaði að það væri ekki allt með felldu og við þyrftum að komast sem hraðast niður, sérstaklega þar sem veður var þannig að enga þyrlubjörgun yrði fá þann daginn og líklega ekki næstu daga. Þegar við hófum göngu okkar frá búðum 2 var ljóst að Siggi var mjög slæmur í lungunum og þurftum við að grípa til súrefnis. Þetta var erfiður dagur í gegnum Khumbu Icefall en eins og fyrri daginn tók Siggi þennan dag á hnefanum og komumst við allir heilir niður í grunnbúðir 26. maí sl.,“ bæta þeir við.

Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson.
Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson. Skjáskot/Instagram

Þennan sama dag tóku þeir nýtt Covid-próf og þá kom í ljós að þeir höfðu báðir smitast af veirunni. Þeir segja líðanina betri í dag en síðustu þrjá daga á undan. Þeir hafi leitað læknis í grunnbúðunum og eru núna í einangrun, fastir í grunnbúðum Everest.

„Höfum það ágætt hérna og erum enn að meðtaka það að hafa komist á hæsta tind heims þrátt fyrir allt mótlætið sem við höfum þurft að kljást við eins og veðurfar, meiðsl og veikindi,“ skrifa þeir og minnast á söfnunina fyrir Umhyggju  félag langveikra barna sem lýkur 11. júní.

Fjallgöngumennirnir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson náðu tindi …
Fjallgöngumennirnir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson náðu tindi Everest-fjalls á sunnudagskvöldið. Ljósmynd/Facebook-síða Umhyggju
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert