Joffrey

Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski

Franski þolrauna- og ævintýramaðurinn Joffrey Maluski hélt í byrjun mars upp í ferðalag um Ísland. Ekki að slíkt sé óalgengt nú á dögum, jafnvel um hávetur, en það sem gerði ferðalag hans nokkuð sérstakt var að hann frá austri til vesturs, yfir hálendið, um hávetur og á hjóli með púlku í eftirdragi. Víða náði hann þó ekki að hjóla í djúpum nýföllnum snjónum og þurfti að ýta hjólinu áfram, eða í versta falli að setja hjólið á púlkuna og draga allt sjálfur áfram. Blaðamaður náði tali af honum um síðustu mánaðarmót þegar hann hafði nýlokið ferð sinni.

Það fer ekki mikið fyrir Joffrey þegar við hittumst í verslun Fjallakofans, en hann hafði fengið aðstoð í tengslum við ýmislegt í ferð sinni. Hógvær og alls enginn beljaki eins og maður hefði mögulega ímyndað sér um einhvern sem ákveður að þvera landið einn um hávetur. Hins vegar var hann enn nokkuð veðurbarinn eftir mánuðinn úti og ljóst að hann er mikill þolraunamaður og tilbúinn að takast á við kulda og náttúruöflin.

Joffrey þrítugur og er uppalinn í nokkuð öðru umhverfi en hann upplifði í þessari ferð, því hann kemur frá frönsku Miðjarðarhafshafnarborginni Nice. Hann hefur þó alltaf verið í fjallamennsku og fjöldægra fjallgöngum og var fyrsta stóra ferðin hans með vinum frá austri til vesturs yfir Pýreneafjöllin. Þá var klifrað og gengið, sem og leikið sér á jafnvægislínu sem var strengd yfir gil eða aðra slíka staði.

Hann kom í sína fyrstu ferð til Íslands árið 2015, en það var tveggja vikna ferð þar sem keyrt var hringinn í kringum landið, en jafnframt komið við í Landmannalaugum og Öskju. Árin 2017 til 2019 ferðaðist hann mikið um Norður- og Mið-Ameríku í húsbíl í ýmisskonar ævintýrum. Þegar faraldurinn brást á fór hann svo að horfa til hjólreiða og fór að skipuleggja tveggja vikna upp í margra mánaða hjólaferðir og er sá ferðamáti sem hann er hrifnastur af í dag.

Hans fyrsta ferð var að fara einn í 20 daga um frönsku Alpana. Því næst tók við tveggja mánaða ferð frá Frakklandi og til Noregs og alla leið til nyrsta odda Noregs. Sumarið 2021 kom hann svo í hópi með tveimur öðrum og tóku þau þriggja mánaða ferð um Ísland. Ekki nóg með að fara næstum allan hringveginn, þá hjóluðu þau einnig Vestfirði, suður hálendið og aftur að hluta yfir hálendið frá austri til vesturs. „Við völdum að koma hingað því það var enn fullt af löndum lokuð og við vildum land með flottu landslagi og ævintýrum,“ segir hann um ástæðu á vali þeirra.

Þetta leiddi svo til þess að í ár var hann aftur mættur, en í þetta skiptið um vetur og planið var að fara einn frá Dalatanga á Austurlandi, sem jafnframt er austasti hluti Íslands, yfir hálendið norðan jökla og á Bjargtanga, sem eru vestasti oddi landsins. Spurður hvort hann viti um aðra sem hafi farið þessa leið hjólandi um vetur segist hann ekki þekkja það og í raun skipti hann litlu máli hvort hann verði fyrstur að einhverju eða ekki. „Ef svo er þá er það flott, en það er ekki markmiðið,“ segir hann og bendir á að fleiri hafi farið þessa leið á fæti eða skíðum. Samhliða þessari ævintýramennsku er Joffrey ljósmyndari og selur og myndir og myndbönd úr ferðum sínum til að fjármagna áframhaldandi ævintýri.

Eins og fyrr segir var planið að byrja á Dalatanga. Vegna veðurs, skriðuhættu og aðstæðna fyrir austan reyndist það hins vegar illfært og ákvað Joffrey því að hjóla fyrst frá Egilsstöðum á Seyðisfjörð og hefja ferð sína formlega þar, en þá væri upphafsstaðurinn allavega við sjó. Þegar hann kom aftur á hérað tók svo við erfiðasti kafli ferðarinnar þar sem farið var um svæðið norðan Vatnajökuls.

Segir Joffrey að fyrir utan umtalsverða hækkun til að byrja með hafi þarna verið mikið um nýfallinn snjó, allt að 30 cm djúpan, og því hafi hann þurft að ýta hjólinu mikið með púlkuna í eftirdragi. Þá hafi á þessum slóðum einnig verið ein eða tvær ár sem hann þurfti að vaða, en á flestum öðrum stöðum, líka yfir stærstu jökulárnar, hafði lagt og þurfti hann því ekki að vaða þær.

Frá Öskju hélt hann svo Gæsavatnaleið að Kistufelli, en sú hækkun og svo eftir Kistufell var að sögn Joffreys líklega erfiðasti hluti leiðarinnar. Aftur þurfti að ýta hjólinu með púlkuna í eftirdragi eða jafnvel setja hjólið á púlkuna og aftur var nýlegur snjór sem þungt var að ganga í. Þess ber að geta að í upphafi ferðar var hjólið, púlkan og allur búnaðurinn sem hann var með um 75 kíló. Það var því talsverð fyrirhöfn að koma því áfram í gegnum snjóinn. Þá fór kuldinn niður í -21°C á þessum tíma og hélst þannig í 10 daga.

Honum tókst þó alltaf að hjóla líka sem létti umtalsvert á, en þetta voru að hans sögn langir og strangir dagar og til dæmis þegar hann kom að skálanum við Kistufell hafði hann verið á ferðinni frá því um morguninn og fram á nótt.

Lýsir Joffrey því að á hefðbundnum degi hafi hann vaknað klukkan 8 og farið að bræða snjó, koma sér í föt, borða og ganga frá. Hann lagði svo af stað um klukkan 10 og var á ferðinni í 10-11 klukkustundir þangað til hann kom sér fyrir á nýjum stað og fór aftur að bræða snjó, elda og svo bara beint í svefnpokann að sofa. Sagðist Joffrey lítið hafa stoppað eða tekið sé pásur yfir daginn, en þó alltaf nýtt tækifæri til að reyna að ná myndum þegar færi gafst. Samtals var hann með 23 kíló af mat, 3 kíló af eldsneyti og átti þetta að duga í 25 daga ferð, en hann fór um 17-20 kílómetra á dag að meðaltali.

Morgunmaturinn samanstóð alltaf af þurrmat og svo súkkulaði sem hann blandaði í mjólkurduft og vatn. Yfir daginn borðaði hann fjögur orkustykki og 50 grömm af hnetum og á kvöldin súpu, þurrmat og súkkulaði. Auk þess blandaði hann olívuolíu í þurrmatinn. Samanlagt eru þetta um 3.500 kcal á dag. Undirrituðum þótt þetta heldur fátæklegt miðað við tilefnið, en Joffrey sagðist ekki hafa orðið þreyttur af svengd og jafnvel ekki þurft öll orkustykkin suma daga. Hann tók hins vegar fram að síðustu dagana þegar hann var kominn á Vestfirði hafi hann alveg verið til í stærri skammta. Þess ber þó að geta að í skálanum við Gæsavötn hitti hann á hóp frá 4x4 og sagði Joffrey þá hafa verið rausnarlega við sig varðandi mat og þakkaði vel og mikið fyrir gestrisnina. Varðandi vökva hafi hann drukkið á milli 2 og 2,5 lítra á dag auk þess að setja salttöflur í vatnið. Viðurkenndi Joffrey að þetta væri líklega í það minnsta af vatni í svona áreynslu, en hefði dugað sér.

Á Sprengisandi kom hann svo við í Laugarfelli og hvíldi í tvo daga áður en hann hélt norður fyrir Hofsjökul í átt að Ingólfsskála, en sú leið tók tvo daga. Hann vissi reyndar að jökulárnar þar gætu reynst erfiðar yfirferðar og hafði skipulagt útúrdúra bæði þar og norðan Langjökuls ef ekki væri hægt að komast yfir árnar. Hefði hann þá farið norður þar sem brýr er að finna. Það reyndist hins vegar óþarfi líkt og norðan Vatnajökuls því snjór var yfir öllum ám.

Þegar komið var á Kjöl tók við besti staður ferðarinnar að sögn Joffreys. Hveravellir. Átti hann erfitt með að leyna aðdáun sinni á heitu lauginni þar eftir dagana sem á undan höfðu komið. Tók hann líkt og í Laugafelli þar tvo hvíldardaga.

Frá Hveravöllum og svo norðan Langjökuls var nokkuð mikill klaki sem bæði reyndist jákvætt og neikvætt. Slíkt undirlag getur verið þægilegt yfirferðar, en þar sem talsverðan meðvind hafði tekið upp og hann var með púlkuna í eftirdragi gat reynst erfitt að halda aftur af hraðanum og varð hann því aðeins að berjast við púlkuna. Þannig datt hann tvisvar á þessum kafla á hátt í 50 km/klst hraða á ísilögðu yfirborði. Þá voru bremsurnar á hjólinu einnig hálf fastar í um -20°C kulda sem gerði þetta allt erfiðara.

Á Arnarvatnsheiði lenti hann einnig í eina storminum í ferðinni, en hann vissi af honum fyrirfram vegna veðurspár. Kom hann því tjaldinu sérstaklega vel fyrir þá nótt, bæði hafði hann grafið það aðeins niður sem og búið til skjólveggi. Það dugði þó ekki alveg, en hann gleymdist að loka örlítill rifu og kom á skömmum tíma slatti af snjó inn í tjaldið. Þá þurfti hann einnig að fara út um nóttina og bæta skjólvegginn. Annars var lítið að gera annað en að setja eyrnatappa í eyrun og reyna að sofa. Segir Joffrey að samkvæmt spá hafi átt að vera um 35-40 m/s þessa nótt og fram á næsta dag. Endaði það líka svo að ís fauk á tjaldið og kom örlítil rifa á það, en tjaldið hélt að öðru leyti. Ákvað Joffrey að vera í tjaldinu næsta dag vegna veðurs, en halda svo af stað aftur degi síðar.

Joffrey fór svo í norðaustur frá Arnarvatnsheiði og kom niður í Staðarskála við Hrútafjörð og var þá aftur kominn á malbik. Frá Staðarskála fór hann Laxárdal og í Búðardal og svo sunnanverða Vestfirði alla leið að Látrabjargi og Bjargtanga. Eftir að hann var kominn á malbikið setti hann púlkuna aftan á hjólið og þó það sé líklegast ekki skilvirkasta leiðin varðandi vindmótstöðu var það skásti kosturinn með púlkuna með í för.

Þótt þverunin væri búin á Bjargtöngum hélt Joffrey til baka í Brjánslæk þaðan sem hann tók ferjuna til Stykkishólms og hjólaði þaðan aftur í Búðardal, en þar fékk hann far til Reykjavíkur. Samtals tók ferðalagið í heild 32 daga með öllu, en þar af voru fjórir dagar sem fóru í heimferðina og sjö dagar í hvíld eða stopp vegna veðurs. Var hann því á ferðinni í þveruninni sjálfri í 21 dag.

Spurður hvað hafi staðið upp úr í ferð sem þessari segir Joffrey að það hafi auðvitað verið landslagið, en hann hafi almennt fengið mjög gott og heiðskýrt veður sem hafi auðveldað alla myndatöku. Eina sem hafi skyggt á það voru nokkrir dimmir dagar norðan Vatnajökuls og segir hann það einu vobrigðin að hafa ekki séð meira af Vatnajökli. Þá hafi verið ákveðinn hápunktur að koma niður af hálendinu. Það hafi samt verið blanda af gleði yfir að hafa tekist erfiðasta verkefnið, en líka sorg að vera búinn á hálendinu. „Ég hefði viljað fleiri daga þar,“ segir hann og greinilegt er að honum líkar vel áskoranirnar og einveran sem fylgir ferð sem þessari. „Ég er ánægður því ég fékk fallegt landslag og fékk að fara yfir ár, ég fékk snjó, kulda og storm. Ég fékk alveg aðstæður sem reyndu á,“ segir hann.

Hann segir að auðvitað geti reynt smá á að hvetja sjálfan sig áfram í ferðum sem þessum og það sé erfiðara en þegar ferðast sé með hóp þar sem aðrir geti verið hvetjandi. Segir hann að þegar hann þurfi að rífa sig áfram hugsi hann um það sem geri sig hamingjusaman og að hann reyni að átta sig á því af hverju hann sé í svona harki. „Það getur verið smá sólargeisli eða fallegt landslag sem maður sér. Það kveikir í manni.“

Joffrey er ekki búinn að skipuleggja næstu ferð, en hann segir ljóst að það verði aftur á breiðhjóli (e. fat bike) í ósnortnu landslagi.

Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur.
Joffrey Maluski hjólar yfir hálendið um vetur. Ljósmynd/Joffrey Maluski
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert