Verðbætur reyndust oftaldar um 2,5 milljarða

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, fór nýverið yfir fjármál Reykjavíkurborgar.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, fór nýverið yfir fjármál Reykjavíkurborgar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við endurskoðun á ársreikningi Reykjavíkuborgar reyndust verðbætur í sjóðstreymi oftaldar um 2.492 milljónir kr. og lántaka vantalin um sömu fjárhæð. Tekið er fram að áhrif á rekstrar- og efnahagsreikning séu engin.

Fram kemur í tilkynningu að ársreikningur Reykjavíkurborgar 2022 hafi verið lagður fram með fyrirvara um breytingar til fyrri umræðu í borgarstjórn 2. maí og verður tekinn til seinni umræðu 9. maí. 

„Við endurskoðun reyndust verðbætur í sjóðstreymi oftaldar um 2.492 m.kr. og lántaka vantalin um sömu fjárhæð. Er hér um áfallnar verðbætur á verðtryggð skuldabréf á útgáfudegi að ræða sem lagðar voru við verðbætur í sjóðstreymi í stað færslu á ný lán. Leiðréttingin hefur áhrif á niðurstöðu veltufjár frá rekstri og fjármögnunarhreyfingar í sjóðstreymi. Áhrif á rekstrar- og efnahagsreikning eru engin,“ segir í tilkynningu borgarinnar. 

Þá er athygli er vakin á að auk sjóðstreymis, hafi skýring 45, langtímaskuldir, verið leiðrétt og lykiltölur í skýringum 61, 62 og 63 sem tengjast sjóðstreymi, veltufé frá rekstri og handbæru fé frá rekstri. Samanburðartölur árið 2021 hafi einnig verið leiðréttar um 244 milljónir þar sem um sambærilegt tilvik var að ræða.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert