Reyndi í tvígang að flýja land eftir nauðgun

Landsréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir manninum.
Landsréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir manninum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir erlendum karlmanni sem ákærður hefur verið fyrir nauðgun hér á landi á nýársdag. Maðurinn reyndi bæði að fara úr landi daginn eftir að meint brot átti sér stað og svo eftir að hann var úrskurðaður í farbann.

Telur embætti héraðssaksóknara mikla hættu á að maðurinn reyni að koma sér úr landi og þannig undan saksókn í málinu verði hann látinn laus. Því sé gæsluvarðhald nauðsynlegt.

Í úrskurðum Landsréttar og héraðsdóms kemur fram að maðurinn sé grunaður um nauðgun á nýársdag með því að hafa þvingað konu til munnmaka í bifreið. Segir í úrskurðinum að hann hafi í engu skeytt því þótt konan berðist á móti, segði honum að hætta og hefði kastað upp. Í framhaldinu hafði maðurinn svo við hana samfarir og segir í úrskurðinum að hún hafi verið illa áttuð vegna áhrifa kannabisefna og ekki getað spornað við verknaðinum. Maðurinn hafi áfram í engu skeytt því þótt hún héldi áfram að kasta upp. Maðurinn neitar sök í málinu.

Fram kemur að daginn eftir hafi maðurinn keypt flugmiða til Bandaríkjanna í skyndi og verið á leiðinni á Keflavíkurflugvöll þegar hann loks gaf sig fram við lögreglu sem hafði þá lýst eftir honum.

Segir í úrskurðinum að maðurinn hafi ekki gefið neinar skýringar á því hvers vegna hann hugðist fara í skyndi af landi brott, á sama tíma og hann átti miða til Póllands viku síðar. Þá hefur hann jafnframt staðfest að hann hafi engin sérstök tengsl við landið.

Manninum var gert að sæta farbanni 3. janúar og var það framlengt tvisvar. Daginn eftir að farbannið var staðfest í Landsrétti í seinna skiptið reyndi maðurinn að yfirgefa landið, en hann átti bókað sæti fyrir sig í flugi til Flórída í Bandaríkjunum og framvísaði neyðarvegabréfi í landamæraeftirliti á Leifsstöð. Var hann í kjölfarið vistaður í biðklefa á vellinum, en hann gat aðeins framvísað farmiða frá landinu en ekki aftur til baka.

Staðfesti Landsréttur gæsluvarðhald yfir manninum til 25. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert