„Maður fyrir borð!“

Sr. Karl V. Matthíasson féll í höfnina við Arnarstapa.
Sr. Karl V. Matthíasson féll í höfnina við Arnarstapa.

Sr. Karl V. Matthíasson, fyrrverandi alþingismaður, prestur og nú síðast smábátasjómaður, lenti í kröppum dansi á dögunum þegar hann féll í sjóinn í höfnina við Arnarstapa þann 9. maí.

Honum til happs urðu vitni að fallinu sem gátu komið honum til bjargar en Karl telur að þyngri róður hefði verið að komast á land ef hann hefði verið einn á ferð. Þungur klæðnaður og stigaleysi hafi gert aðstæður krefjandi fyrir „mann sem kominn er á ellilaun“ eins og Karl orðar það sjálfur en Karl er 71 árs.

Auðlindin fjallaði fyrst um málið 

Þurfa að klifra á milli báta 

Karl rær ásamt Bjarka Atlasyni á bátnum Straumur SH-61. Að sögn Karls eru gjarnan 10 til 15 bátar í höfninni á meðan strandveiðitímabilið stendur yfir. Því er stundum ekkert annað í stöðunni en að klifra á milli báta til að komast í land eftir róður eða til að komast í bátinn á morgnana.

„Við vorum búnir að landa og ganga frá öllu. Svo þegar ég var að fara í land þá eru aðstæður þannig að þú þarft að hoppa á milli báta til að komast í land,“ segir Karl.

Er engin fjallageit 

Í hans huga hafi verið auðveldast að stökkva á milli stefna í stað þess að fara inn í lestina eða farþegarýmið til að koma sér á milli bátanna. „En þarna sannast að það er aldrei of varlega farið,“ segir hann.

Karl barðist fyrir smábátasjómenn þegar hann sat á Alþingi og …
Karl barðist fyrir smábátasjómenn þegar hann sat á Alþingi og var umfjöllunarefni Sigmunds, teiknara.

„Ég var að fara frá einum bátnum og yfir á annan og ég hélt ég væri meiri fjallageit en raunin er. Mér skrikaði fótur og það var svo ekkert að grípa í og ég vissi ekki af mér fyrr en ég var kominn á bólakaf,“ greinir Karl frá.

Verra þegar allt er í pati 

Hann segir að í fyrstu hafi hann hugsað að þetta yrði allt í lagi. Fljótlega hafi hann þó áttað sig á því að erfiðara er að hreyfa sig í fullum klæðum í sjó auk þess sem nístandi kuldinn sótti að.

„Ég upplifði mig fastan í aðstæðunum. Eitt lærði ég þó þegar maður lendir í svona aðstæðum. Ef maður getur gefið sér brot úr sekúndu og velt því upp hvað er best að gera þá er það betra en að allt sé í pati. Í mínu tilfelli var fyrst allt í pati og ég þyngdist fljótt. Varð hreinlega smeykur. Í ofanálag var ég með bakpoka með nestinu mínu á bakinu og hann var þungur," segir Karl.

Of þungur fyrir einn mann 

Birkir hafði klöngrast yfir fleiri báta fyrir framan Karl. Um leið og hann varð þess var að Karl hafði fallið í sjóinn kom hann og rétti fram hönd sína. Karl greip i hana en þyngdin var slík að ógjörningur var fyrir einn mann að ná honum á þurrt land.

„Þá kallaði hann (Birkir); „Maður fyrir borð!" Þá komu þarna aðvífandi maður að nafni Ólafur Már frá Vestmannaeyjum og Marínó sem er ofan af Skaga. Svo var bróðir minn Einar Pálmi einnig að fylgjast með höfninni fyrir tilviljun og þeir ná að toga mig upp," segir Karl þakklátur. 

Heppilegra að hafa stiga þarna 

Hann segir alls óvíst hvort hann hefði getað komist á þurrt land einn síns liðs. Sem betur fer kann Karl að troða marvaðann. Einna helst telur hann að hægt hefði verið að koma sér að varnargarðinum sem var nærri. „Ég veit ekkert hvort það hefði tekist. Ég veit til að mynda ekkert um það hvort mér hefði tekist að príla upp hála steina svona þungur eins og ég var," segir hann.

Þakkar guði fyrir lífið og góða menn

Hann kennir sér einskis meins eftir volkið en kveðst hafa hugsað oft til þessa atviks að undanförnu. „Ég hef verið að hugsa það síðan hvort ekki væri heppilegra að það væru tveir til þrír stigar þarna,“ segir Karl. 

„Svo þegar ég lagðist til hvílu um kvöldið. Þá þakkaði ég guði fyrir lífið og góða menn,“ segir Karl. 

mbl.is