Grímuklæddir með hafnaboltakylfur

Lögreglan að störfum í miðbæ Reykjavíkur.
Lögreglan að störfum í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ellefu manns gista fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir hin ýmsu brot.

Í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti var tilkynnt um menn að ráðast að öðrum með hafnaboltakylfum. Lögreglan fór á vettvang og aðstoðaði brotaþola. Gerendurnir voru aftur á móti á bak og burt og er þeirra nú leitað. Þeir reyndust allir hylja andlit sín með grímum.

Slagsmál á bar og í bifreið

Tilkynnt var um slagsmál á bar í Kópavogi. Tveir menn reyndust þar hafa lent í áflogum. Ekki var talin þörf á að vista þá í fangageymslu fyrir líkamsárás en annar þeirra þurfti að leita aðstoðar á slysadeild vegna málsins.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna slagsmála sem brutust út inni í bifreið. Tveir höfðu átt í deilum þar inni og náði annar þeirra yfirhöndinni með þeim afleiðingum að hinn þurfti að leita á slysadeild. Grunur lék á að um stórfellda líkamsárás væri að ræða og var því annar þeirra vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gærkvöldi til kl. 5 í morgun.

Mikið var að gera hjá lögreglunni vegna hávaða í heimahúsum, auk þess sem talsverð ölvun var í miðbæ Reykjavíkur. Nokkrir þurftu aðstoð lögreglu við að komast ýmist á fætur eða til síns heima.

Tveir voru handteknir í miðborginni. Reyndust þeir báðir vera með piparúða á sér, auk þess sem annar er grunaður um vörslu á fíkniefnum. Þeir gista nú fangageymslur lögreglu.

Ökumaður bifreiðar olli umferðarslysi. Í ljós kom að hann var verulega ölvaður og gistir fangageymslur í þágu rannsóknar málsins. Mikið tjón varð á bifreiðum.

Tilkynning barst lögreglu um þrjá einstaklinga í slagsmálum í miðborginni. Þegar lögreglan ætlaði að fá hjá þeim persónuupplýsingar var djúpt á skilríkjum. Mennirnir voru vistaðir í fangaklefa og eru þeir grunaðir um brot á útlendingalögum.

Flugeldar og fjögurra bíla árekstur

Tilkynnt um slasaðan einstakling eftir rafhlaupahjólaslys. Þá reyndist hann einnig vera ölvaður og lék grunur á að hann hefði ekið rafhlaupahjólinu undir áhrifum áfengis. Hann var látinn laus að blóðsýnatöku lokinni.

Einnig var tilkynnt var um fjögurra bíla árekstur á Vífilsstaðavegi. Enginn slasaðist.

Sömuleiðis barst tilkynning um notkun flugelda í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ. Rætt var við hluteigandi og lofuðu þeir að láta af sprengjuæðinu.

mbl.is