Skertar launahækkanir áhyggjuefni fyrir dómara

Í verðbólguaðgerðum ríkisstjórnarinnar felst lagabreyting um laun þjóðkjörinna fulltrúa og …
Í verðbólguaðgerðum ríkisstjórnarinnar felst lagabreyting um laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins. mbl.is/Hanna

Formaður Dómarafélags Íslands segir það vera áhyggjuefni að skerðingar á launahækkun æðstu embættismanna bitni á dómurum. Það sé ekkert í lögum sem kveði á um að laun dómara skuli lækka í samræmi við laun stjórnmálamanna.

Í gær tilkynnti ríkisstjórn aðgerðir gegn verðbólgu. Í þeim felst lagabreyting um laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins. Þá hækki launin um 2,5% næstu mánaðarmót í stað 6%. Er þetta gert til þess að tryggt að laun æðstu embættismanna skapi ekki aukinn verðbólguþrýsting en í þeim hópi eru því ekki aðeins ráðherrar og stjórnmálamenn heldur einnig dómarar, saksóknarar og ráðuneytisstjórar.

Þriðja skiptið á rúmum þremur árum

Kristbjörg Stephensen er landsréttardómari og formaður Dómarafélags Íslands. Hún segir að um sé að ræða þriðja skiptið sem fyrirhugað er að svipta dómara þegar áunnum rétti til hækkunar launa.

„Þetta er í þriðja sinn á rétt rúmum þremur árum sem dómarar hafa mátt sæta skerðingu á launakjörum sínum,“ segir Kristbjörg í samtali við mbl.is. „Í fyrsta sinn í mars 2020 þegar launahækkun sem átti að koma til framkvæmda 1. júlí það ár var frestaði til 1. janúar 2021, í annað sinn þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið ákvað í fyrra, upp á sitt eindæmi, að breyta aðferð við útreikning á þeirri launavísitölu sem fylgt hafði verið fram að því við hækkun launa dómara og að auki að endurkrefja dómara um það sem ráðuneytið taldi ofgreidd laun.“

Hún bætir við að þessar ákvarðanir ráðuneytisins hafi nýlega verið lýstar ólögmætar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og íslenska ríkið hafi nú sótt um leyfi til þess að áfrýja þeim dómi til Hæstaréttar.

„Dómarar skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum samkvæmt stjórnarskránni. Í því felst að þeir eiga ekki að vera háðir öðrum þáttum ríkisvaldsins. Það nær meðal annars til launa dómara,“ segir Kristbjörg.

„Það má með réttu halda því fram að dómstólar hér á landi séu ekki fyllilega sjálfstæðir í störfum sínum úr því að löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið telja ítrekað að þeim sé heimilt að skerða laun dómara.“

Ekkert í lögum sem kveður um að þetta megi

Kristbjörg segir ekki vera þörf á því að endurskoða fyrirkomulag á kjaramálum dómara, þar sem fjallað er um laun dómara í lögum og þar sé kveðið á um að laun skuli hækka árlega í samræmi við þær hækkanir sem orðið hafa á launum ríkisstarfsmanna næstliðið ár.

„Þótt alþingismenn kjósi að lækka sín laun er ekkert í lögum sem kveður á um að laun dómara skuli þá líka lækka. Þetta kerfi sem nú gildir var komið á með lögum árið 2019, að höfðu samráði við heildarsamtök vinnumarkaðarins vegna óánægju með fyrra fyrirkomulag þegar kjararáð ákvað launahækkanir æðstu embættismanna,“ segir hún.

„Við það tækifæri var meðal annars bent á að ekki væri rétt að ráðherra hefði aðkomu að ákvörðun launa og starfskjara dómara og annarra starfa sem nytu sjálfstæðis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið þurfa aðeins að virða þau sjónarmið sem lágu að baki þeim breytingum sem gerðar voru á fyrirkomulagi launaákvarðana dómara á árinu 2019 og þar með virða sjálfstæði dómsvaldsins.“

Dómarar ekki leiðandi hvað laun varðar

Kristbjörg segir þetta vera áhyggjuefni fyrir dómara í landinu og bendir á að þau rök haldi ekki, að dómarar og aðrir embættismenn eigi ekki að vera leiðandi þegar kemur að launahækkunum og að af þeim sökum sé rétt að fara fram með þessa aðgerð.

„Ákvæði laga um dómstóla gera þvert á móti ráð fyrir að laun dómara hækki til samræmis við launaþróun ríkisstarfsmanna, það er hækki til samræmis við launahækkanir ríkisstarfsmanna sem þegar eru komnar fram,“ segir hún.

Aðspurð segir hún þó að laun dómara séu ágæt, „enda eru dómarar meðal æðstu embættismanna ríkisins og taka laun til samræmis við ábyrgð og álag sem fylgir starfinu og sjónarmið um stjórnskipunarlega sérstöðu þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert