Kynna víðtækar aðgerðir gegn verðbólgunni

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. Afkoma ríkissjóðs …
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. Afkoma ríkissjóðs verður bætt um 36,2 milljarða króna á næsta ári með sparnaði í rekstri ríkisins, þar með talið niðurskurði í ferðakostnaði, frestun framkvæmda, nýjum tekjum og með því að draga úr þensluhvetjandi skattaívilnunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin ræðst nú í enn frekari aðgerðir til að sporna gegn verðbólgu og hækkun vaxta. Ein af þeim aðgerðum er að lögum verði breytt þannig að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins hækka um 2,5 prósent í stað 6 prósent eins og upphaflega átti að gera þann fyrsta júlí.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Ríkisstjórnin kynnti fjölmargar aðgerðri í dag sem styðja við aðgerðir Seðlabanka Íslands. Í tilkynningunni kemur fram að með aðgerðunum er stefnt að því að sporna gegn þenslu, bæta afkomuna og taka utan um hópa sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana.

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. mbl.is/​Hari

Tvöfalda uppbyggingu íbúða

Ein af aðgerðunum sem verður ráðist í er að tvöfalda stofnframlög til uppbyggingu leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins. Að auki verða framlög til hlutdeildarlána aukin enn frekar. Með því er vonast til þess að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega ári 2024 og 2025 verði þær 1.000 á ári. 

Auk þess verður 250 nýjum íbúðum bætt við fyrri áætlanir þessa árs og verða þá samtals tæplega 800. Þetta styður við aukið framboð á húsnæðismarkaði.

Fresta samhæfingarmiðstöð viðbragðaðila

Þá verður lagt fram frumvarp um stofnun Þjóðarsjóðs til að styrkja enn frekar áfallaþol ríkissjóðs til framtíðar. 

„Afkoma ríkissjóðs verður bætt um 36,2 milljarða króna á næsta ári með sparnaði í rekstri ríkisins, þar með talið niðurskurði í ferðakostnaði, frestun framkvæmda, nýjum tekjum og með því að draga úr þensluhvetjandi skattaívilnunum eins og fram kemur í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar,“ segir í tilkynningunni og bætt við að þar af verði framkvæmdum fyrir 3,6 milljarða króna frestað tímabundið til að draga úr þenslu.

Meðal verkefna sem verður frestað er nýbygging Stjórnarráðsins og uppbygging samhæfingarmiðstöðvar viðbragsaðila.

Lífeyrir og frítekjumark hækkað

Jafnframt er tekið fram að til þess að verja kaupmátt örorku- og ellilífeyrisþega verði lífeyrir almannatrygginga hækkaður um 2,5 prósent frá miðju ári, til viðbótar við 7,4 prósent hækkun í upphaf árs.

Sömuleiðis verður frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda hækkað um 2,5% fyrir yfirstandandi ár, afturvirkt frá 1. janúar sl., til viðbótar við hækkun þess í upphafi árs um 7,4%.

Að auki er unnið að lagabreytingum til að bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði en starfshópur mun skila tillögum sínum varðandi það fyrir fyrsta júlí.

Frumjöfnuður ríkissjóðs jákvæður

Þá er tekið fram að ef nýleg þjóðhagspá Seðlabankans gangi eftir er útlit fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði jákvæður um 44 milljarða króna í ár. 

„Þetta er 20 ma.kr. betri afkoma en vænst var við framlagningu fjármálaáætlunar í mars og 90 ma.kr. betri afkoma en vænst var við samþykkt fjárlaga fyrir yfirstandandi ár í desember síðastliðnum. Einnig er útlit fyrir 10 ma.kr. betri afkomu árið 2024 en áður var áætlað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert