Úrskurðurinn eyðir óvissuþáttum

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri.
Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Við sjáum á úrskurðinum hversu flókið leyfisveitingaferlið er og kærumálin voru líka flókin. Úrskurðurinn sýnir að það var búið að fara yfir flest atriðin, en það sem varðar stjórn vatnamála þarf að skoða betur,“ segir Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri í samtali við mbl.is um úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála auðlindamála, sem felldi í gær úr gildi virkjanaleyfi Orkustofnunar fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá.

Ætlunin var hefja undirbúningsframkvæmdir í næsta mánuði og að framkvæmdir við virkjunina sjálfa hæfust í apríl á næsta ári.

Fyrirmælum um stjórn vatnamála ekki fylgt

Í úrskurðinum eru tilfærð ýmis rök fyrir niðurstöðunni og sætir Orkustofnun þar nokkurri gagnrýni. Kemur þar m.a. fram að stofnunin hafi ekki gætt að því að fylgja fyrirmælum um stjórn vatnamála við undirbúning útgáfu virkjanaleyfisins og þess að virkjanaleyfið samræmdist stefnumörkun um vatnsvernd sem kæmi fram í vatnaáætlun. Eðlilegt hefði verið að leita formlegra leiðbeininga hjá Umhverfisstofnun um málsmeðferð sem hefði getað markað undirbúningi virkjanaleyfisins skýrari ramma, þannig að ljósara væri hvaða kröfur væru gerðar til framkvæmdaraðila varðandi ástand Þjórsár og þær breytingar sem gætu hlotist af framkvæmdum. Umhverfisstofnun hefur á hendi stjórnsýslu á sviði vatnsverndar.

Þá segir einnig að nánari athugunar hefði verið þörf vegna umfangs framkvæmdarinnar og þeirra umhverfisáhrifa sem henni fylgja. Skortur á gögnum eða stefnumótun geti ekki leyst stjórnvöld undan lögformlegum skyldum sínum hvað þetta varðar.

Á þessum slóðum er ætlunin að Hvammsvirkjun rísi.
Á þessum slóðum er ætlunin að Hvammsvirkjun rísi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Málið í algerum forgangi

Halla Hrund segir að ákveðin nýmæli séu í úrskurðinum, en þótt farið hafi verið eftir gildandi vatnaáætlun í vinnunni að hennar mati, sé gerð krafa um meiri vinnu hvað þau atriði varðar. „Við erum nú að greina með Umhverfisstofnun hvað þarf nákvæmlega að gera og finna leiðir til að bregðast við. Málið er í algerum forgangi hjá okkur,“ sagði Halla Hrund.

-Gefið þið ykkur einhvern tiltekinn tíma til að ljúka málinu?

„Það væri óábyrgt af mér að nefna einhver tímamörk í því sambandi,“ segir hún. Undirbúningstíminn sem fór í leyfisveitinguna sýni hversu flókinn lagaramminn sé og það að þetta sé lengsti úrskurður sem kveðinn hefur verið upp, staðfesti hversu flókið málið sé, sem og lagaramminn sem um það gildir.

Flókin lagaumgjörð

„Við fögnum þessum tilmælum  því að það skiptir máli að við fylgjum bestu háttum þegar kemur að nýtingu vatnsauðlindarinnar. Við þurfum að nýta auðlindir með sjálfbærum hætti og er niðurstaðan til þess fallin að tryggja það enn betur. Það er mjög gott að fá þessa lagaskýringu frá úrskurðarnefndinni sem skýrir leikreglur og eyðir óvissuþáttum,“ segir Halla.

-Telur þú úrskurð nefndarinnar áfellisdóm yfir Orkustofnun?

„Úrskurðurinn sýnir fyrst og fremst hversu flókin lagaumgjörðin er og þarna eru líka ákveðin nýmæli sem ekki hafa sést áður við aðrar stórar leyfisveitingar. Við fögnum því að nú eru komin fram skýrari tilmæli um hvernig taka eigi þær breytingar inn og við munum sannarlega vinna að því að leysa úr þeim málum. Það skiptir máli að stjórn vatnamála sé með sem bestum hætti, því við erum að tala um sjálfbærni auðlindanýtingar sem er alltaf í forgangi, í samræmi við markmið stjórnvalda,“ segir Halla Hrund Logadóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert