„Neyðarkall“ frá fyrirtækjum á Reykjanesi

Páll Erland forstjóri HS Veitna.
Páll Erland forstjóri HS Veitna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrirtæki á Reykjanesi sentu frá sér auglýsingu í dag þar sem skorað er á sveitarfélagið Vogar, stjórnvöld og Landsnet að leggja Suðurnesjalínu 2 strax. Páll Erland, forstjóri HS veitna, segir í samtali við mbl.is þessa auglýsingu vera neyðarkall fyrirtækja á svæðinu sem geta ekki lengur við unað núverandi ástand. Fyrirtækin Isavia, Samherji, Aðaltorg, HS Orka, HS veitur, Algalíf og Verne global ásamt SAR settu nafn sitt á auglýsinguna.

„Ætla stjórnvöld, Landsnet, og sveitarfélagið Vogar að halda orkuöryggi og vaxtartækifærum Suðurnesja áfram í gíslingu?“ stendur í auglýsingu sem birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta. Páll Erland segir núverandi Suðurnesjalínu ekki anna eftirspurn ört stækkandi svæðis og að ný Suðurnesjalína sé eina leiðin til að tryggja orkuöryggi.

Þessi auglýsing birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta.
Þessi auglýsing birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta. Skjáskot/Víkurfréttir

Óásættanlegt ástand

„Staðan er einfaldega þannig að hér hefur vaxið blómleg byggð sem er sífellt að vaxa og hún þarf rafmagn. Hér á svæðinu eru einnig þjóhagslega mikilvægir innviðir eins og flugvöllurinn og ýmist sem tengist varnarmálum. Þannig það er orðið mjög aðkallandi að orkuöryggi þessa svæðis verði kippt í lag og það gerist með Suðurnesjalínu 2.“

HS veitur er dreifiveita sem sér um að veita rafmagn t.a.m. til heimila og fyrirtækja á Reykjanesi. „Allt rafmagnið þarf að vera afhent til okkar yfir flutningskerfið. Þannig ef flutningskerfið annar ekki lengur þörfinni þá er ekki nóg fyrir heimilin og fyrirtækin á svæðinu.“ segir Páll.

Hann segir núverandi stöðu óásættanlega sem muni bitna á fólki og fyrirtækjum. „Orkuskiptin kalla á mikið rafmagn og það liggur alveg fyrir að það verður ekki hægt að leysa orkuskiptin á Reykjanesi án meira rafmagns.“

Grátlegt hvað málið tekur langan tíma

Guðbergur Reynisson leiddi hópinn á vegum Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi (SAR) sem gerði þessa auglýsingu. Hann segir í samtali við mbl.is það vera grátlegt hversu langan tíma það hefur tekið að finna lausn í raforkumálum svæðisins og þess vegna hafi fyrirtækin í auglýsingunni stokkið á vagnin um leið og hugmynd að auglýsingu kom til tals.

„Ég held að Landsnet, sveitarfélagið Vogar og stjórnvöld þurfi að setjast niður og ræða málið þar til lausn er komin. Ég er þó hræddur um að einhver þrjóska sé komin í málið hjá sumum aðilum, sem gengur auðvitað ekki í svona mikilvægu máli.“ segir Guðbergur.

Guðbergur Reynisson ásamt konu sinni.
Guðbergur Reynisson ásamt konu sinni. Ljósmynd/aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert