Óvíst hvort starfsfólk fái allt greitt

Tilkynnt var um að útgáfu Fréttablaðsis yrði hætt þann 31. …
Tilkynnt var um að útgáfu Fréttablaðsis yrði hætt þann 31. mars síðastliðinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eignir Torgs, sem gaf út Fréttablaðið, duga ekki fyrir samþykktum kröfum skiptastjóra í félagið. Samþykktar kröfur í félagið nema um 235 milljónum króna en samkvæmt heimildum mbl.is nema eignir félagsins um 100 milljónum króna. Þá á eftir að setja hluta þeirra í verð. 

Heildarkröfur í þrotabúið námu um 1,5 milljarða kr. Stærstur hluti er almenn krafa Helga Magnússonar, eiganda Torgs eða tæpur milljarður króna. Kröfuna gerir hann í gegnum annað félag í hans eigu Hofgarða ehf. Skiptastjóri hefur þegar hafnað þeirri kröfu þar sem hún er langt umfram eignir búsins. 

Stór hluti krafna í þrotabúið eru frá fyrrum starfsmönnum Fréttablaðsins og Hringbrautar en um 100 manns misstu vinnuna þegar eftir að tilkynnt var um gjaldþrot Torgs. Ef að líkum lætur miðað við núverandi eignastöðu Torgs mun starfsfólk einungis fá hluta launa sinna greiddan frá þrotabúinu. 

Ekki eru þó öll kurl komin til grafar. Skiptastjóri skoðar hvort ástæða sé að rifta samningi þegar dv.is og fleiri vörumerki voru keypt af félagi Helga Magnússonar, eiganda Torgs, af félaginu Hofgarðar efh. sem jafnframt er í hans eigu. 

Helgi selur Helga 

Torg, sem er í eigu Helga að langstærstum hluta, keypti DV og dv.is árið 2019 af Frjálsri fjölmiðlun. Hofgarðar ehf., sem jafnframt er í eigu Helga, keypti vefsíðurnar, dv.is, frettabladid.is og hringbraut.is af Torgi í mars 2021. 

Helgi Magnússon, eigandi Torgs, Hofgarða og Fjölmiðlatorgs ehf.
Helgi Magnússon, eigandi Torgs, Hofgarða og Fjölmiðlatorgs ehf.

Snemma á þessu ári keypti Fjölmiðlatorg ehf. dv.is á 420 milljónir. Fjölmiðlatorg ehf. var stofnað á haustdögum 2022 og er jafnframt í eigu Helga. 

Metur hvort riftunar sé þörf 

Samkvæmt heimildum mbl.is metur Óskar Sigurðsson skiptastjóri Torgs nú hvort ástæða þyki til að leitast eftir riftun samnings sem gerður var þegar Hofgarðar eignaðist dv.is og önnur vörumerki í mars 2021.

Riftunarfrestir eru að hámarki tvö ár í flestum tilvikum. Svo vill til að rétt rúm tvö ár liðu frá því Hofgarðar ehf. keyptu dv.is og önnur vörumerki af Torgi áður en Torg hætti starfsemi og óskaði eftir gjaldþrotaskiptum. 

Einungis til eignir fyrir hluta af launakröfum 

Launakröfur hafa m.a. forgang þegar kemur að því að skipta því sem eftir stendur í þrotabúinu. 

Skiptastjóri hefur samþykkt kröfur upp á um 235 milljónir króna. Eignir búsins eru hins vegar einungis um 100 milljónir króna. Fjölmargir fyrrum starfsmanna Fréttablaðsins og Hringbrautar gera kröfu í þrotabúið vegna ógreiddra launa.

Að óbreyttu eru líkur á því að starfsmenn fái einungis hluta launa sinna greidd. Meðal kröfuhafa eru Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrum ritstjóri Fréttablaðsins. 

Helgi Magnússon vildi ekki tjá sig um málið við mbl.is þegar eftir því var leitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert