Hissa á því að kvikan sé ekki komin upp

Ekki er talið líklegt að upptök eldgoss verði annars staðar …
Ekki er talið líklegt að upptök eldgoss verði annars staðar en hefur verið spáð. mbl.is/Eyþór Árnason

„Við eigum von á því að hún sé að koma upp á yfirborðið á hverri stundu. Ég er frekar hissa á því að hún sé ekki komin upp. Það virðist eins og það sé einhver fyrirstaða sem tefur fyrir því. Það ætti að draga til tíðinda mjög fljótlega.“

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofu Íslands.

Benedikt telur skjálftavirkni norðaustan við Keili ekki vera vísbendingu um að kvikan sé að leita í þá átt, né að mögulegt gos komi upp þar. Hann telur miklu líklegra að um gikkvirkni sé að ræða vegna spennubreytinga sem eru í jarðskorpunni allt um kring á svæðinu. Talið er að líklegast komi upp kvika á milli Fagradalsfjalls og Keilis.

500 metrum frá yfirborði

Hann segir veðurstofuna vera með GPS-mæla mjög nálægt skjálftaupptökum dagsins. Unnið verði úr gögnum þeirra snemma í kvöld sem gefur væntanlega gleggri mynd. Sem fyrr segir á Benedikt ekki von á því að þau gögn leiði í ljós að kvikan sé að leita annað.

Í gær barst veðurstofunni gögn úr Iceye-gervihnettinum sem sýndu að kvikan er komin á 500 metra dýpi frá yfirborði jarðar. Í ljósi þess að þau gögn eru nú orðin dagsgömul má ætla að kvikan hafi færst enn nær yfirborðinu. Á þeim gögnum byggir Benedikt mat sitt að dregið geti til tíðinda innan skamms.

Benedikt segir kvikuna líklega vera að berjast í gegnum einhverja fyrirstöðu. Má þá ætla að hún komi upp með nokkrum látum, eins og Þorvaldur Þórðarson hefur sagt í samtali við mbl.is. Annars telur Benedikt vont að spá mikið um framgang goss sem ekki er þegar hafið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert