Hraun rennur í „góða átt“ fyrir innviðina

Hraun rennur til suðurs og því innviðir ekki í bráðri …
Hraun rennur til suðurs og því innviðir ekki í bráðri hættu, enn sem komið er. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við getum varla sagt að við séum glöð yfir því að hraunið sé að renna. En þetta er góð átt fyrir innviðina okkar,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets. 

Hraun rennur til suðurs frá Litla-Hrúti en verst væri ef hraun stefndi til norðurs – þá gæti það ógnað Suðurnesjalínu, sem sér Suðurnesjum fyrir rafmagni. Starfsemi Landsnets er því á hættustigi, líkt og almannavarnir.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets. Ljósmynd/Landsnet

Eru tilbúin ef áttin breytist

„Eins og staðan er í dag, þá rennur hraun ekki í átt að innviðunum,“ segir Steinunn en tekur fram að Landsnet sé tilbúið, renni hraun til norðurs. Það tæki hraunið nokkra daga, jafnvel vikur, að komast að Suðurnesjalínu.

„Við höfum undanfarna daga verið að meta hættuna á því sem gæti gerst. Við vitum að það myndi alltaf taka einhverja daga fyrir hraunið að komast að línunni. Það gefur okkur tíma til að verja möstrin,“ segir hún. Til þess sé hægt að byggja varnargarð, styrkja undirstöðu mastranna eða færa möstrin til, ef þau eru í hraunstreymislínunni.

„Athuga hvað við þurfum af búnaði“

„Við erum þegar farin að vinna í þessu. Undirbúa efni, athuga hvað við þurfum af búnaði og líka þarf náttúrulega að tryggja að við værum með verktaka sem kæmist hratt og örugglega í verkið, ef að þessu kæmi.“

„Þetta er langtímaáætlun. En ef þetta gerist, þá erum við tilbúin. Þetta er eina línan sem liggur út á Reykjanesið svo það skiptir máli að við getum haldið henni gangandi,“ segir Steinunn í lokin.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka