Mestar áhyggjur af reyk vegna gróðurelda

Meiri áhyggjur eru af gróðureldum í núverandi gosi, heldur en …
Meiri áhyggjur eru af gróðureldum í núverandi gosi, heldur en í þeim eldgosum sem hafa verið á síðustu tveimur árum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það sem við höfum mestar áhyggjur af núna, sem við höfum ekki séð eins mikið í fyrri gosum, eru gróðureldarnir,“ segir Gunnar Guðmundsson lungnasérfræðingur og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. 

„Við sjáum að reykur vegna gróðurelda er að dreifast yfir stórt svæði. Þegar gróðurinn brennur þá myndast litlar sótagnir í reyknum, reykurinn getur þannig verið mjög ertandi fyrir augu og öndunarfæri,“ segir Gunnar. 

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir jafnframt að mestar áhyggjur séu af gróðureldum á svæðinu.

Að svo stöddu er þó ekki ljóst nákvæmlega hvaða samsetningar það eru í reyknum sem geta verið skaðlegar. Gunnar segir vísindamenn þó vera að skoða það í dag og vonast hann til þess að upplýsinga sé að vænta áður en langt um líður.

Ekki einungis skaðlegt fyrir viðkvæma

„Reykurinn liggur mjög lágt og stígur ekki mikið upp, þannig að við teljum ekki skynsamlegt að vera að ganga akkúrat í reyknum frá þessum gróðureldum,“ segir Gunnar. 

Hann segir ljóst að það geti verið mjög óhollt fyrir fólk að anda reyknum að sér. „Við verðum að gera ráð fyrir því að þetta séu svipaða samsetningar og í öðrum hefðbundnum gróðureldum,“ segir Gunnar.

Því er ljóst að reykurinn getur verið mjög skaðlegur fyrir alla að anda að sér, hvort sem fólk er viðkvæmt fyrir eða ekki, sérstaklega í miklu magni og yfir langan tíma segir Gunnar. 

Spurður hvað sé „langur tími“ svaraði Gunnar: „Það er örugglega ekki þægilegt að vera í þessum reyk í meira en nokkrar mínútur.

Gunnar segir kostinn við reykinn þó vera að við sjáum hann betur en gösin. Gösin eru litlaus og oftast lyktarlaus, þannig að erfitt getur verið að varast þau. Reykinn er hins vegar auðveldara að sjá og á sama tíma auðveldara að varast. 

Svipað og hefur verið áður

Hvað gastegundirnar varðar þá segist Gunnar hafa heyrt frá jarðvísindamönnum að um svipaðar lofttegundir sé að ræða og voru í fyrra. „Mökkurinn er að uppistöðu bara vatnsgufa, en síðan er í honum koltvíoxíð og brennisteinsdíoxíð,“ segir Gunnar.

Hann segir það vera það sem er hvað mest eitrað, enda geti fólk fundið fyrir ertingu í húð, augum og hálsi. Þá geti gastegundirnar haft áhrif á lungu ef styrkurinn er í mjög miklu magni. 

„Í lágum styrk þá eru áhrifin kannski mest á fólk með undirliggjandi sjúkdóma eins og astma,“ segir Gunnar og bætir við:

„Ef fólk finnur mikið fyrir sínum astma núna þá er ekki endilega sniðugt að fara að skoða eldgos af því að það gæti haft ennþá meiri áhrif.“ Hann hvetur fólk því til þess að nota innöndunarlyfin sín og annaðhvort að bæta við lyfjagjöf eða auka hana, ef óþægindin eru mikil.

Að lokum minnir Gunnar á að börn eru útsettari fyrir gasmengun enda eru þau lágvaxnari, nær reyknum, og anda hraðar. 

„Við viljum því eindregið hvetja fólk til þess að fara ekki með ung börn eða gæludýr á svæðið, vegna hættu á eitrun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert