Búum á Íslandi og þurfum bara að tækla þetta

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. Samsett mynd

„Við búum bara á Íslandi og við verðum að búa okkur alltaf undir það. Við segjum bara að við ætlum að tækla það að búa í þessu landi og takast á við náttúruvána eins og hægt er, vitandi það þó að við erum ansi lítils megnug ef það fer að haga sér á versta veg en þá þarf bara að bregðast við því.“

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra spurður hvort að einhver stefna liggi fyrir um íbúðarhúsnæði og iðnaðarhúsnæði á eldvirkum svæðum á Íslandi eða hvort að þannig stefna verði mynduð.

Sagði að ekki ætti að byggja lengra suður

Eins og greint hefur verið frá ráðlagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur Hafnfirðingum að byggja ekki lengra í suðurátt frá Völlunum. Hann tók fram að það væri mjög ólíklegt að eldgos myndi hefjast við Vellina í Hafnarfirði en til þess að það yrði að veruleika þyrfti eldvirknin að færa sig um sprungurein. 

Hluti Vallanna í Hafnarfirði standa á yngsta hrauninu á höfuðborgarsvæðinu. Það rann á síðasta eldgosatímabili á Reykjanesskaganum sem var eftir landnám á Íslandi og því mjög ungt í jarðfræðisögulegu samhengi. Rósa Guðbjarts­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Hafn­ar­fjarðar, sagði í samtali við mbl.is að ummæli Þorvalds væru óábyrg og óþörf. 

Ný skýrsla væntanleg

Að sögn Sigurðar má búast við nýrri skýrslu um náttúruvá á Suðurnesjum í lok sumars. „Það er fjölþættur hópur ráðuneyta, almannavarna og vísindamanna þar sem að þessi heildarskoðun er í gangi. Hluti af því er þessi skoðun á náttúruvá hvað varðar Hvassahraun sem snýr þá að hugsanlegum samgöngubyggingum,“ segir hann.

Hann bendir þó á að mesta hætta steðji að innviðum á Suðurnesjum sem sjá íbúum fyrir hita, rafmagni og köldu vatni.

Vestmannaeyjar sem dæmi

Sigurður minnir á að við búum á eldfjallaeyju og að það þýði að alltaf þurfi að hafa varann á þó að það geti ekki stjórnað fullkomlega hvernig öllu er hagað. Hann nefnir eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973 sem dæmi um viðnámsþrótt Íslendinga og sem dæmi um byggð þar sem náttúruváin er bersýnileg.

Eins og umræðan var núna á Goslokahátíð Vestmannaeyja um daginn. Það var bara tekin ákvörðun á sínum tíma um að Vestmanneyjar skuli rísa en þá var verið að ræða að færa byggðina. Sama umræða kom upp í tengslum við snjóflóð.

Landið kannski ekki nógu stórt

„Ef við ætlum einungis að vera þar sem er ekkert hraun, ekkert eldgos, ekkert snjóflóð, engir jarðskjálftar, ekki neitt þá er landið kannski bara ekki nógu stórt. Við þurfum bara að tækla þetta.“

Hann segir það mikilvægt að vera með frábæra jarðvísindamenn til að hjálpa stjórnvöldum að móta stefnu til næstu tugi ára. 

„Þegar menn hafa farið í byggingar á hrauni sem hefur runnið eftir landnám. Þá hafa svo sem ekki verið uppi aðvaranir um að það sé ekki gáfulegt.“

Hann segir að lokum að það sé einstaklega heppilegt hvar eldgosið kom upp á Reykjanesskaganum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert