Tómas Arnar Þorláksson
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík og Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs segjast sammála um að ekki megi dæma Reykjanes úr leik, þrátt fyrir eldgos og jarðskjálftahrinu, í umræðunni um hvar eigi að reisa varaflugvöll.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, mánudag.
Fyrirhugað var að reisa nýjan Reykjavíkurflugvöll og jafnframt alþjóðlegan varaflugvöll í Hvassahrauni en ýmsir hafa dregið ágæti þeirrar áætlunar í efa eftir að eldgos hófst í Meradölum á miðvikudaginn.
Dagur og Einar segja mikilvægt að bíða með að taka ákvarðanir þar til áhættumati Veðurstofu Íslands á svæðinu sé lokið. Veðurstofan skilar niðurstöðu í haust en Dagur segir þá fyrst mögulegt að skoða nýja möguleika í stað Hvassahrauns.
Einar segir þó að skynsamlegt gæti verið að skoða aðra möguleika sem fyrst. „Menn þurfa strax að hefja vinnu við að skoða aðra kosti sem einnig voru taldir fýsilegir,“ segir hann og vísar til skýrslu Rögnunefndar frá 2015 þar sem fjórir aðrir flugvallarkostir voru nefndir til viðbótar við Hvassahraun.
Að mati Dags er það jákvætt við eldgosið í Meradölum að það hefur vakið fólk til vitundar um mikilvægi varaflugvallar. Góður varaflugvöllur sé þjóðaröryggismál og nauðsynlegur fyrir atvinnulífið og hagkerfið.
Meira í Morgunblaðinu í dag.