Nýtt bílastæði gæti stytt leiðina um 13 kílómetra

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist íhuga að stytta gönguleiðina að gosstöðvunum …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist íhuga að stytta gönguleiðina að gosstöðvunum allverulega. Samsett mynd

„Ég hef nefnt sem dæmi Vigdísarvelli þar sem eru grasfletir sem gætu nýst sem bílastæði. Það er vegaslóði þangað og þaðan er 3,5 kílómetra gangur að gosstöðvunum sem ég held að sé ekki svo krefjandi. Þetta þarf að vinna með sveitarfélögunum á svæðinu sem og landeigendum.“

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra spurð hvort að yfirvöld íhugi að opna nýjar leiðir að eldgosinu við Litla-Hrút. Guðrún bendir á að núverandi gönguleið að eldgosinu sé um tuttugu kílómetrar fram og til baka og gæti því fyrirhugað nýtt bílastæði stytt gönguleiðina um þrettán kílómetra.

Bílferðir fyrir þá sem treysta sér ekki til göngu

Hún ítrekar að ómögulegt er að koma í veg fyrir að fólk fari að gosstöðvunum enda mikill áhugi fyrir því og segir mikilvægt að tryggja öryggi þeirra sem leggja leið sína þangað.

„Ég vil að við skoðum núna hvort að við getum einhvern veginn gert það aðgengilegra að komast nær gosstöðvunum. Við vitum að fólk vill sjá þetta. Þetta er einstakur viðburður í Íslandssögunni.“ 

Hún tekur fram að nú þegar eru ýmsir vegir um Reykjanesskagann og að tækifæri sé til að auðvelda leiðina að gosstöðvunum. Hún bendir þó á að það þurfi að gera í samráði við landeigendur á svæðinu.

„Ég vil að það sé skoðað með landeigendum. Við vitum það að út á Reykjanesinu er mikið af vegaslóðum og reiðvegum og annað. Við þurfum að tryggja það að það sé hægt að búa til akfæran veg, jafnvel þó að það væri bara boðið upp á bílferðir fyrir þá sem treysta sér ekki til að ganga.

Erfitt fyrir litla fætur

Hún ítrekar að fólk verði að fara varlega í kringum gosstöðvarnar og bera virðingu fyrir náttúrunni. 

„Þarna er fólk á eigin ábyrgð. Við skulum ekki ögra náttúrunni. Hún getur verið grimm. Maður hefur heyrt af fólki sem fer með ung börn af stað. Það er krefjandi fyrir litla fætur að ganga tuttugu kílómetra í sjö stiga hita og miklum norðanvindi. Vitaskuld getur komið til frekari lokunna á svæðinu en það verður lögreglustjórinn á Suðurnesjum að meta.“

Gasmælar á leiðinni á svæðið

Hún segir ýmsar ákvarðanir hafa verið teknar síðan að eldgosið hófst á mánudaginn og bætir við að þau séu í raun á sama stað núna hvað varðar viðbúnað á svæðinu og þau voru eftir fjórar vikur í fyrsta gosi við Fagradalsfjall.

„Það er búið að tryggja viðveru landvarða og verið að auglýsa eftir fleirum. Einhverjir eru komnir frá þjóðgarðinum á Þingvöllum. Við erum búin að tryggja viðveru slökkviliðs og sjúkraflutninga. Björgunarsveitirnar standa vaktina eins og þær hafa gert síðustu ár og gera það rosalega vel.

Við erum búin þétta fjarskiptanetin, þannig að símasamband á að vera betra á svæðinu. Við erum sömuleiðis búin að taka ákvörðun um að bæta við gasmælum. Það mun hjálpa okkur mjög mikið að kortleggja hvernig mengunin liggur á hverjum tíma og beint fólki í ákveðnar áttir,“ segir hún og bætir við aðspurð að gasmælarnir verði komnir á svæðið á næstu dögum. 

10 milljónir til björgunarsveitarinnar

Hún ítrekar að allir viðbragðsaðilar hafi lært ýmislegt af síðustu eldgosum á Reykjanesskaganum og að nú sé komið upp gott og fumlaust verklag á svæðinu. 

Hún þakkar björgunarsveitum innilega fyrir ómetanleg og vel unnin störf og tilkynnir að að ríkisstjórnin hafi samþykkt á fundi sínum í dag að veita björgunarsveitinni Þorbirni tíu milljóna króna styrk. 

„Það er aðallega hugsað til tækjakaupa. Svo þeir geti styrkt sig með fjórhjólum og slökkvitækjum, því nú ganga yfir gróðureldar. Ég vil líka ítreka að þó að þessi styrkur hafi farið til Þorbjarnar þá er þetta fyrst og fremst hugsað fyrir tækjabúnað og mun því nýtast öðrum sveitum sem koma á svæðið til starfa.“

Harmar dónaskap

Hún segir Íslendinga vera einstaklega heppna með björgunarsveitir alls staðar á landinu. Hún fagnar björgunarsveitarfólki sem hleypur frá sínum launuðu störfum til að sinna sjálfboðaliðastarfi. 

Hún harmar einnig þann dónaskap og mótlæti sem björgunarsveitarfólk er búið að mæta á gosstöðvunum.

„Ég ætla að vona að slæm framkoma heyri til algjöra undantekninga. Ég ætla hvetja fólk til að sýna mikla tillitsemi og að vera þakklát fyrir að við eigum þetta öryggi á vettvangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert