Hraun gæti víða náð að byggð

„Þar sem áður hefur runnið hraun þar getur aftur runnið …
„Þar sem áður hefur runnið hraun þar getur aftur runnið hraun, þó líkurnar séu ekki endilega miklar,“ segir Þorvaldur Þórðarson. Samsett mynd

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir í samtali við Morgunblaðið að eitt helsta eldstöðvakerfið sem gæti ógnað byggð á höfuðborgarsvæðinu sé Krýsuvíkurkerfið, sem nær frá Búrfelli í Heiðmörk og að suðurenda Núpshlíðarhálsins sem er 2 km frá suðurströnd skagans.

Ef gosupptök verða norðarlega á þessu kerfi þá gæti hraun runnið í átt að byggð í Hafnarfirði og Garðabæ. Kapelluhraunið sé dæmi um sögulegt hraun sem hefur runnið á þessum slóðum.

„Þar sem áður hefur runnið hraun þar getur aftur runnið hraun, þótt líkurnar séu ekki endilega miklar,“ segir Þorvaldur og bætir við:

„Það eru þokkalega ungir gígar við Undirhlíðar, eina fimm kílómetra suður af Vallahverfinu. Ef þar gysi þá myndi hraun renna í átt að byggðinni. Þó er það allsendis óvíst að hraunflæði nái til byggðarinnar þar sem hún er í dag og sama gildir um hvenær muni gjósa aftur á þessum stað,“ segir Þorvaldur og bætir við að versta sviðsmyndin væri sú ef byggt væri í áttina að eða við þetta gígasvæði, því þá væri viðbragðstíminn minni.

Grindavík berskjalda

En ein helsta hættan gæti steðjað að Grindavík.

„Ef gýs á Svartsengiskerfinu þá verður bara að segjast eins og er að Grindavíkurbær yrði mjög berskjalda,“ segir Þorvaldur en bætir við að það gætu verið mörg hundruð ár í slíkt gos.

Margir ungir gígar séu hins vegar í kringum Grindavík og ef það gýs á svipuðum slóðum í framtíðinni er ekki útilokað að hraunflæði nái til bæjarins.

Að lokum ítrekar Þorvaldur að lítið bendi til þess að gos verði á þessum stöðum og því þurfi fólk ekki að hafa áhyggjur.

Það skipti hins vegar máli að fólk sé upplýst um hvað sé að gerast og hvað gæti gerst því allur Reykjanesskaginn er kominn á tíma.

„Það hefur verið byggð í Reykjavík frá landnámi og er þar enn þá. Það er mikilvægt að muna það.“

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert