Úrvinda börn þurftu aðstoð við gosstöðvarnar

Lögregla ítrekar að ekki sé mælst til þess að börn, …
Lögregla ítrekar að ekki sé mælst til þess að börn, þungaðar konur og fólk með hjarta- eða lungnasjúkdóma gangi að gosinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðstoða þurfti erlenda ferðamenn við gosstöðvarnar í nótt, sem ekki treystu sér til að ganga Meradalaleiðina til baka. Klukkan eitt í nótt þurfti lögregla að aðstoða erlenda fjölskyldu, en með í för voru tvö lítil börn sem voru úrvinda af þreytu. Lögregla minnir á að svæðið sé hættulegt og gangan erfið.

Lögregla ítrekar að ekki sé mælst til þess að börn, þungaðar konur og fólk með hjarta- eða lungnasjúkdóma gangi að gosinu. 

Fólk mjög nálægt gígnum

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum er minnt á að gangan nemi um 20 kílómetrum og geti tekið allt að 7 klukkustundir og því ekki fyrir hvern sem er. Á öðrum tímanum í nótt er áætlað að um 50 manns hafi verið inni á gossvæðinu.  

Engin óhöpp urðu á svæðinu í gærkvöldi og í nótt, en sást til manna mjög nærri gígnum. Samkvæmt tilkynningu lögreglu voru einstaklingarnir svo nálægt gígnum að viðbragðsaðilar gátu ekki haft afskipti af þeim, enda fari þeir ekki svo nálægt gígnum.

„Mikilvægt er að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Fjallið Keilir er inni á merktu hættusvæði. 

Lífshættulegar gastegundir

Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar og að hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífshættulegar gastegundir safnast í dældir og geta reynst banvænar. Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum.

Mælt er með því að fólk noti rykgrímur til að forðast mengun frá gróðureldum, en lögregla ítrekar einnig að fólk fari að gosstöðvunum á eigin ábyrgð. 

Opið er inn á svæðið frá Suðurstrandarvegi í dag, en meðfylgjandi er uppfært kort af hættusvæði sem Veðurstofa Íslands gaf út í gær.

Fjallið Keilir er inn á merktu hættusvæði.
Fjallið Keilir er inn á merktu hættusvæði. Kort/Veðurstofa Íslands

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert