Opið að gosstöðvunum í dag

Opið er inn á gossvæðið við Litla-Hrút í dag.
Opið er inn á gossvæðið við Litla-Hrút í dag. mbl.is/Hákon

Opið er að gosstöðvunum við Litla-Hrút í dag frá Suðurstrandarvegi. Lokun gossvæðisins í gær var án vandræða en gróðureldar loga enn á svæðinu.

Það óhapp varð þó í nótt að björgunarsveitarmaður velti fjórhóli við gossvæðið og var hann fluttur af vettvangi í sjúkrabíl, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Kenndi hann sér meins í baki og aflögun á hendi.

„Enn sem fyrr safnast fólk saman upp við gíginn og gengur erfiðlega að ná þessu fólki út af hættusvæði,“ segir enn fremur. Hins vegar virtist enginn vera þar eftir klukkan níu í gærkvöldi.

Hófu leit að eldri konu

Tveir ferðamenn urðu fyrir hnjaski á gönguleið A og voru fluttir niður á bílastæði. Þá þurfti að hefja leit að eldri konu á svæðinu en hún skilaði sér að lokum á bílastæðið.

Alls fóru 1.952 Meradalaleið að gosinu í gær. Talinn fjöldi á eldri gönguleiðum var 1.358.

Lögreglumenn, landverðir og sjúkraflutningamenn eru á svæðinu í dag. Björgunarsveitir sinna útköllum á svæðinu en verða þar ekki að staðaldri. Erfiðlega hefur gengið að manna vaktir björgunarsveitarmanna, segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert