Gosstöðvunum lokað á kvöldin á meðan gýs

Ekki er forsvaranlegt að halda gönguleiðum opnum allan sólarhringinn, að …
Ekki er forsvaranlegt að halda gönguleiðum opnum allan sólarhringinn, að mati lögreglustjórans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Opið verður inn á gossvæðið við Litla-Hrút frá Suðurstrandarvegi í dag en gönguleiðum að gosinu verður héðan í frá lokað klukkan 18 öll kvöld, á meðan gýs enn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

„Af öryggisástæðum verður gönguleiðum frá Suðurstrandarvegi því lokað daglega kl. 18, eða fyrr eða seinna eftir atvikum, þegar opið er. Sú ákvörðun gildir á meðan gos stendur yfir við fjallið Litla-Hrút. Vigdísarvallavegi verður lokað samhliða lokun gönguleiða,“ segir í tilkynningunni.

Lokunin gekk vandræðalaust fyrir sig í gær en að mati lögreglustjóra er „ekki forsvaranlegt að halda gönguleiðum opnum allan sólarhringinn“.

Fólk fór inn á hættusvæði

Að sögn lögreglu fór töluverður fjöldi fólks inn á hættusvæði austan við gíginn og kom það sé fyrir upp við hraunjaðarinn. Þeim var ekki fylgt eftir af lögreglu né björgunarsveitarmönnum.

„Enn sem fyrr eru einstaka ferðamenn til vandræða og fara ekki að fyrirmælum viðbragðsaðila en misvel gekk að koma fólkinu út fyrir hættusvæðið,“ segir í tilkynningunni.

Ökumaður var staðinn að utanvegaakstri á Lækjarvöllum við Djúpavatn, en nokkrir einstaklingar verða kærðir fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.

Lögreglan bendir á að fjallið Litli-Hrútur sé á hættusvæði og þar sé fólk á eigin ábyrgð.

Nokkrir örmagna

Gosvaktin gekk vel í gærkvöldi og í nótt, að sögn lögreglu, en nokkur tilfelli voru um fólk sem flytja þurfti niður af gönguslóð eftir að hafa örmagnast á göngu.

Einn ferðamaður varð viðskila við hóp sinn en fannst að var fylgt niður af fjalli.

Tveir ferðamenn slösuðust lítillega og var þeim komið til aðstoðar. Þá var tilkynnt  um tvær manneskjur sem höfðu týnst en þær komu fljótlega í leitirnar.

Í gærkvöldi var ferðamönnum á Meradalaleið snúið við vegna loftmengunar. Gróðureldar loga enn og slökkvistarf heldur áfram.

Erfiðalega gengið að manna vaktir

Fjöldi fólks á Meradalaleið í gær var 2.006 manns og 1.190 sem fóru eldri gönguleiðir, samkvæmt mælingum.

Í dag verða lögreglumenn, björgunarsveitarmenn, landverðir og sjúkraflutningamenn á svæðinu í dag en erfiðlega hefur gengið að manna gosvaktirnar, að því er segir í tilkynningu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert