Ekki hægt að segja nei við þessu verkefni

„Þetta gekk vel í gær og við nálgumst alltaf endann óðfluga,“ segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, um viðvarandi baráttu slökkviliðsmanna gegn gróðureldunum á gosstöðvunum við Litla-Hrút.

Blaðamaður mbl.is fylgdist með störfum slökkviliðsmanna á miðvikudaginn. Þó nokkrir komu úr sumarfríi til að taka þátt í verkefninu. Spurður hvort það sé erfitt að segja nei við þessu verkefni segir Jón Þór Jóhannsson, varðstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, að það sé ómögulegt. „Það er ekki hægt,“ segir hann kíminn.

Myndskeið af störfum slökkvimanna á vettvangi má berja augum í spilaranum hér að ofan.

Söguleg þurrkatíð

Einar segir að þeir eigi eftir að halda áfram að vinna hörðum höndum gegn gróðureldunum í dag með sömu aðferð og hefur verið notuð síðan á miðvikudaginn. Í því felst að flytja mikið magn af vatni með stórum tankabílum að svæðinu í stað þess að nota bamba sem þyrla Landhelgisgæslunnar flytur á svæðið.

Spurður hvort hann sé vongóður um að þeir nái að ráða niðurlögum gróðureldanna í dag svarar Einar: „Við reynum okkar besta.“

Hann segir litla sem enga rigningu á Reykjanesskaganum síðustu daga vera nokkuð ergilegt fyrir slökkviliðið og spyr hvort að um einhvers konar met sé um að ræða.

„Er þetta ekki að verða sögulegt hérna, þessi þurrkatíð? Ég man ekki eftir svona. Kannski hefur það gerst en maður bara of upptekinn yfir blíðunni.“ Hann biðlar til fólks að fara varlega með opinn eld á meðan svo þurrt er á Reykjanesskaganum og víðar.

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík.
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík. Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert