Myndskeið: „Þetta er stærsti dagurinn“

„Það er ekki mikil slökun þessa daganna en okkar tími mun koma.“

Þetta segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík í samtali við mbl.is. Hann segir slökkvistarf í dag hafa gengið vel og að um sé að ræða stærsta daginn hingað til fyrir slökkvistarf á svæðinu. Um 30 slökkviliðsmenn voru á svæðinu í dag.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.

Blaðamaður mbl.is var á svæðinu og virtist létt meðal slökkviliðsmanna þó að sumir þeirra hafi unnið linnulaust síðustu daga gegn gróðureldunum og þó að sumir hafi komið úr sumarfríi til að taka þátt í verkefninu. Sumir tóku sér jafnvel frí úr vinnu til að taka þátt í baráttunni gegn gróðureldunum.

Einar sagði í gær að þeir myndu notast við nýja aðferð í dag til vinna bug á gróðureldunum sem hafa verið viðvarandi á svæðinu í kringum eldgosið við Litla-Hrút.

Slökkviliðsmenn á svæðinu notast nú við stóra tankabíla til að flytja vatn á svæðið en Einar segir það reynast betur en að flytja vatn með bömbum með hjálp þyrlu Landhelgisgæslunnar. 

Myndi taka rigningunni fagnandi

Það hafa þó ákveðin vandræði fylgt því að flytja vatnið með trukkunum en það gerðist ítrekað að þeir festust er þeir keyrðu um erfitt landslagið í kringum gosstöðvarnar. Einar tekur fram að heppilega séu þeir með gröfur á svæðinu sem aðstoði þá þegar að ökutækin festast og minnir á að ekki sé um ökufæran veg að ræða. 

Einar segir það heldur óheppilegt rigning hafi ekki látið sjá sig á meðan að þeir vinna hörðum höndum við að ráða niðurlögum gróðureldanna.

„Það er samt pínu kjánalegt að við þráum öll sól og sumar, heitt úti og hafa gaman. Að maður sé að þrá það að fá rigningu er pínu kjánalegt. Ég myndi nú alveg þiggja rigningu þó að það væri bara í tvö daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert