Heimkynni huldufólks í Grundarfirði

Ljósmynd/Björg Ágústsdóttir

Til eru margar skemmtilegar sögur af ýmiss konar vættum í Grundarfirði, en þar hafa verið skrásettir sjö staðir þar sem finna má heimkynni álfa og huldufólks. Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðar, segir álfatrúna gegna mikilvægu hlutverki í íslenskri menningu. Hún segir skemmtilegt að gefa henni sess þegar kostur er á, vegna þess að í henni felist samspil milli umhverfis, menningar og samfélags.

„Álfatrúin er oft hluti af landslagi og gæðum í landslagi sem við erum að reyna að halda í,“ segir Björg. „Ef hægt er að varðveita hana án mikillar fyrirhafnar eða án þess að færa þurfi miklar fórnir þá fer þetta ljómandi vel saman,“ segir Björg, en Grundarfjörður er mikill álfabær og eru heimkynni huldufólks nú hluti af deiliskipulagi bæjarins.

„Eins og dæmin á kortinu sýna fram á höfum við búið með þeim [álfunum] í dálítinn tíma og reynt að taka tillit til þeirra þegar við á,“ segir Björg. Hún átti þátt í því að ákveða að hlífa lóðinni að Fellasneið, en sagan segir að í fallegri klettaborginni sem standi á lóðinni sé að finna huldufólk (sjá punkt á korti).

„Við létum vinna lóðarblöð og þessi lóð var tekin sérstaklega undir þetta. Hún var aðeins minnkuð, en þarna er að finna fallega klettaborg sem má fá að vera þarna í landslaginu. Þetta passaði vel við skipulagið og við þurftum bara að færa aðeins til, sem var alveg hægt,“ segir Björg.

Kort/mbl.is

Sá unga fallega huldukonu

Sagan á bak við punktinn við Fellasneið 3, ásamt hinum sex sem koma fyrir á kortinu, var skrásett af Gunnari Njálssyni, íbúa í Grundarfirði. Um Fellasneið 3 segir að Gunnar hafi verið nýlega fluttur í einbýlishús í Hjaltalínsholti þegar honum var sagt að byggja ætti á lóð þar sem huldufólk hefði aðsetur í Klapparholti ofan Ölkeldudals.

Fór hann þá á stúfana og gekk að holtinu til þess að virða það fyrir sér og hitta ábúendur. Þegar að holtinu var komið sá hann að á steini einum sat ung kona sem grét í barm sér. Gunnar gekk nær konunni, heilsaði og spurði hana hvað amaði að.

„Ég er svo sorgmædd vegna þess að ég hef heyrt að þið ætlið að byggja íbúðarhús ofan á mitt hús,“ sagði unga konan. Þá sagðist Gunnar lofa því að hjálpa henni og tala við bæjarstjóra, en orð Gunnars glöddu stúlkuna sem klædd var í fallegan bláan og hvítan kjól.

Fáeinum dögum síðar hitti Gunnar Björgu Ágústsdóttur bæjarstjóra og sagði henni frá fundi sínum með ungu huldukonunni. Var þá gengið í það að rétta hlut konunnar og voru í kjölfarið gerðar áætlanir um það að ekki yrði byggt á þessari lóð. Hafa þær áætlanir staðið til dagsins í dag.

Hjólaði á heimkynni dvergs

Auk ungu konunnar í Klapparholti hefur skrásetning Gunnars að geyma sögur um dverga, álfa og huldufólk sem býr í náttúru Grundarfjarðar.

Þar segir til dæmis frá ungum dreng sem kom auga á lítinn dverg í steini einum sem stendur fyrir utan kirkjuna. Sagan er svohljóðandi:

„Það var rétt fyrir síðustu aldamót að ungur drengur var að hjóla á flötinni þar sem steinninn er. Fyrir slysni hjólaði drengurinn á steininn og datt af hjólinu, en hann stóð þó upp og leiddi hjólið burtu. Er drengurinn gekk í burtu leit hann til baka á steininn. Þá sá hann bregða fyrir litlum karli sem kom út úr steininum og horfði reiðilega á hann; karlinn steytti hnefa sína og spurði hvers vegna drengurinn væri að hjóla á húsið sitt.

Af lýsingu drengsins að dæma var þessi litli karl svokallaður dvergur. Dvergurinn var með dökkrauða skotthúfu, í brúnleitum stakk, dökkgrænum buxum með blárri bót á öðru hnénu og í svörtum stígvélum. Eyru hans voru áberandi þykk, kúlulaga efst eins og þykkildi væri þar. Þá kom grátt hár undan skotthúfunni og var andlit hans prýtt gráu, stuttu alskeggi. Eftir að hafa barið dverginn augum flýtti drengurinn sér í burtu, en þegar hann leit aftur við sneri dvergurinn baki í drenginn og hélt aftur inn í steininn“ (Gunnar Njálsson).

Undrast heimsku mannanna

Í sögunum segir einnig að í þremur steinum norðan við innganginn að sjálfseignaríbúðum dvalarheimilisins búi þrír glaðlyndir dvergar. Auk þessa búi lítill karl í steini í Hjaltalínsholti sem furði sig á heimsku mannanna og gjörðum þeirra. Þá sé að finna heimkynni huldufólks í Grafargili og undir Hellnafellum þar sem það leiki sér í litríkum fötum.

Loks segir sagan að við vestasta húsið á Grundargötu búi geðþekk og alúðleg hjón sem teljist til huldufólks, en lóðin sem steinn þeirra stendur á hefur verið tekin frá, skipulögð sem huldufólksbyggð og fengið sitt eigið götunúmer. Skrásetninguna í heild sinni er hægt að nálgast í kortasjá á heimsíðu Grundarfjarðarbæjar. Þar er hægt að sjá bústaði vættanna, skoða myndir af hverjum stað fyrir sig og lesa allar sögurnar í heild sinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert