Dregur úr gosinu líkt og verið sé að tæma blöðru

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur reiknar með að gosinu ljúki á …
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur reiknar með að gosinu ljúki á næstu tíu til fimmtán dögum. Samsett mynd

„Það sem við sjáum er að það er að myndast minni gígur inni í hinum. Það er vegna þess að nú er þetta orðið kraftminna og þá ná skvetturnar ekki upp á barmana og þá fer að myndast nýr gígbarmur.“

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is. Hann segir líklegt að gosinu ljúki á næstu tíu til fimmtán dögum.

„Það dregur úr því eins og það sé verið að tæma blöðru sem er undir þrýstingi. Ef það fylgir þessari þróun áfram þá eru um tíu dagar eftir.“

Gæti stöðvast fyrr

Hann segir það býsna algengt þegar dregur úr sprengigosum að nýr og minni gígur myndist í þeim stóra.

„Þetta er merki um að þetta sé að minnka.“

Eldgosið við Litla-Hrút svipi mjög til gossins í Meradölum í fyrra. Haldi gosið áfram að hegða sér eins og gosið í fyrra séu tíu til fimmtán dagar í goslok.

„En það gæti stoppað fyrr,“ segir Magnús Tumi og bætir við að engin merki séu um að kraftur eldgossins muni aukast að nýju.

„Þetta eru vísbendingarnar og þetta er líklegasta þróunin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert