Opið inn að gosi í dag

Eldgos við Litla-Hrút.
Eldgos við Litla-Hrút. mbl.is/Kristinn Magnússon

Opið er inn að gossvæðinu í dag en gönguleiðum verður lokað klukkan 18 síðdegis. 

Spáð er sunnan- og suðaustanátt við gosstöðvarnar og er því viðbúið að mengunin frá gosinu berist til norðurs og norðvesturs. 

Fólk hvatt til að kynna sér hættusvæði

Lokun gönguleiða gekk vel í gær og var nóttin því tíðindalítil, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þó þurftu nokkrir ferðamenn á aðstoð viðbragðsaðila að halda. 

Alls fóru 823 einstaklingar Meradalaleið í gær og 1160 einstaklingar gengu eldri gönguleiðir. 

Fjallið Litli Hrútur er þó inn á hættusvæði, eða bannsvæði, sem fólk er hvatt til að kynna sér. Á meðfylgjandi mynd er svæðið skýrt afmarkað, en fari fólk þangað er það á eigin ábyrgð. 

Hér má sjá gönguleiðir og skilgreint hættusvæði.
Hér má sjá gönguleiðir og skilgreint hættusvæði. Kort/Ríkislögreglustjóri

Leið upp að gosstöðvunum er það sem viðbragðsaðilar kalla Meradalaleið.  Ganga þarf um 18 kílómetra leið fram og til baka.  Gönguferðin „hentar því alls ekki öllum,“ að mati lögreglustjóra. 

Í tilkynningunni er áréttað að gangan fram og til baka getur tekið fimm til sjö klukkustundir. 

Aðrar merktar gönguleiðir eru jafnframt opnar.  Meradalaleið (leið E) var opnuð daginn eftir að gos hófst.  Leiðin liggur til norðausturs frá bílastæði í Stóra Leirdal í átt að útsýnisstað á Hraunsels – Vatnsfelli.   

Vakin er athygli á því að gönguleið merkt A sé mun erfiðari gönguleið en leið E og á leið A sjáist ekki til gosstöðvanna. 

Lögreglumenn, landverðir og sjúkraflutningamenn eru á svæðinu í dag.  Björgunarsveitir sinna útköllum á svæðinu en verða þar ekki að staðaldri.  Fyrirkomulag eftirlits kallar því enn fremur á ábyrgða hegðun ferðamanna að mati lögreglu. 

Fólk er hvatt til að undirbúa sig vel, ætli það sér inn að gosstöðvunum, og kynna sér upplýsingar á safetravel.is, heimasíðu Almannavarna, visitreykjanes.is, heimasíðu Veðurstofunnar og loftgæði.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert