Rólegheit og þolinmæði gott veganesti í dag

Ljósmynd/Lögreglan á Suðurnesjum

Umferð dagsins um Suðurland hefur farið vel af stað og gengið vel, helgin var stórtíðindalaus á svæðinu en þó hafa á þriðja tug verið gripnir við akstur undir áhrifum.

Þetta staðfestir Einar Sigurjónsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi í samtali við mbl.is en áhersla hafi verið lögð á ölvunareftirlit í umferðinni.

„Við reiknum með þungri umferð í dag og við verðum með okkar eftirlit. Hún á svo sem að geta gengið greiðlega fyrir sig,“ segir Einar.

Fólk þurfi að passa að bíða nógu lengi áður en það keyri af stað

Hvað varðar heilræði til ökumanna í dag leggur hann áherslu á að fólk passi að vera ekki undir vímuáhrifum undir stýri.

„Vera þolinmóði í umferðinni og taka tillit til annarra, það eru gríðarlega margir sem verða á ferðinni í dag, menn verða bara að fylgja straumnum. [...] Vera rólegir og þolinmóðir það er mjög gott veganesti held ég inn í daginn,“ segir Einar.

Þá hvetur hann ökumenn til að vera vissir um að þeir séu öruggir undir stýri eftir drykkju gærkvöldsins. Almennt sé miðað við að beðið sé í tólf til átján tíma eftir drykkju þar til sest er undir stýri en misjafnt sé hvað fólk þurfi að passa sig lengi eftir magni áfengis sem var drukkið og öðrum persónubundnum þáttum.

Helgin var stórtíðindalaus á Suðurlandi.
Helgin var stórtíðindalaus á Suðurlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ökumenn með eftirvagna virði hámarkshraða

Lögreglan á Suðurnesjum birti sambærileg heilræði á Facebook síðu sinni rétt í þessu. Þar eru ökumenn með eftirvagna sérstaklega áminntir að virða reglur um hámarkshraða. 

Þá er líka nauðsynlegt að minna á að auk þess að skilyrt er að ekið sé á löglegum hraða þurfa farþegar og ökumenn að spenna öryggisbeltin. Gætum einnig að framúrakstri en hann getur vandast talsvert í þungri umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert