Stjórnvalda að móta stefnu til framtíðar

Forstjóri Umhverfisstofunar segir landvörslu á gossvæðinu hafa gengið vel.
Forstjóri Umhverfisstofunar segir landvörslu á gossvæðinu hafa gengið vel. Samsett mynd

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir landvörslu á gossvæðinu við Litla-Hrút almennt hafa gengið vel.

Hún segir stofnunina hafa brugðist eins hratt við og unnt var, gefið sér tvær vikur í að ráða landverði í þetta tiltekna verkefni. Alla jafnan eru sumarstörf auglýst í febrúar, en sem viðbragð við atburðum var tíminn styttur umtalsvert.

Landvörður hafi verið á svæðinu þegar gosið hófst og var í fyrstu brugðist við því með að fá landverði annars staðar frá til að taka að sér aukavinnu.

Viðbragðssveitir landvarða sé stjórnvaldsákvörðun

Þegar Sigrún er spurð um framtíðina og hvaða lærdóma megi draga af reynslunni núna, segir hún:

„Það þarf að ræða það í stærra samhengi hvernig við viljum bregðast við náttúruvá. Það er ekki kveðið á um slíkt viðbragð í náttúruverndarlögum. Það er fyrir æðri stjórnvöld að taka stefnumiðað pólinn í hæðina. Skilgreina þarf hverjir eru viðbragðsaðilar, hvort við viljum búa til viðbragðssveitir landvarða og þá þarf að manna landvörsluna þannig. Í dag er hún ekki mönnuð rúmt, þannig að það sé svigrúm til að bregðast við náttúruvá. Þannig er það hreinlega ekki í dag og stjórnvalda að ákveða annað.“

Landvarsla ólík björgunarsveitarstarfi

Hún segir landvörslu fyrst og fremst hugsaða með náttúruverndarsjónarmið að leiðarljósi, þá sérstaklega með friðlýst svæði í huga, sem eru um 130 talsins á Íslandi.

„Landvarsla hefur ekki verið skipulögð eins og björgunarsveitarstarf að þar séu sjálfboðaliðar tilbúnir til að hlaupa út á hverjum tíma og bjarga. Vilji menn gera það, eða búa til eitthvað afbrigði af landvörslustarfinu til að bregðast við í svona atvikum, þá er það ákvörðun til að taka.“

Sigrún segir að búast megi við frekari eldsumbrotum á þessu svæði eða öðrum sem eru nærri mannabyggðum. Oft er ekki hægt með góðu móti að loka slíkum svæðum af og því þurfi að hugsa um viðbragðið.

Hún segir Umhverfisstofnun muni sinna landvörslu á gossvæðinu út október, eins og upphaflega var áætlað. Daglega sé farið yfir stöðuna með viðbragðsaðilum vegna svæðisins og sé samráð þeirra gott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert