Röð óheppilegra bilana

Borgarstjóri segir hnökra í innleiðingu nýs flokkunarkerfis hafi orðið til …
Borgarstjóri segir hnökra í innleiðingu nýs flokkunarkerfis hafi orðið til þess að sorp hafi hlaðist upp. Samsett mynd

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir röð bilana á sorphirðutækjum hafi orðið til þess að sorp hafi safnast upp í borginni á undanförnum vikum.

Dagur segir borgina hafa verið að innleiða nýtt flokkunarkerfi fyrir heimilissorp í sumar. Tafir hafi orðið í því ferli varðandi pappír og plast.

„Við vorum að breyta þremur bílum til þess að takast á við nýju flokkunina auk nýrra bíla sem hafa verið keyptir. Þeir tóku upp á því að bila allir þrír. Það tafði okkur og við erum að vinna upp þær tafir.“

Tæki geta bilað hjá öllum 

Spurður um þá hugmynd Sósíalista að borgin sjái líka um hirðu grenndarstöðva, sem nú eru í umsjá einkafyrirtækisins Terra, tók borgarstjóri ekki beinlínis afstöðu en svaraði:

„Það biluðu líka tæki hjá einkaaðilanum Terra. Við höfum tekið höndum saman við að vinna það líka upp og það er smám saman að ganga betur. Ég held að þessi tvö dæmi sýni að hvort sem þetta er eigin rekstur eða einkarekstur þá geta tæki bilað.“ 

Borgarstjóri er almennt kátur með hvernig gengur í innleiðingu nýja kerfisins.

„Fólk hefur tekið því vel og sumir hafa sagt „mikið var, löngu tímabært að byrja að flokka lífrænt frá öðru sorpi.“ Við erum einfaldlega að sigla inn í nýja tíma með aukinni áherslu á flokkun og umhverfisvernd. Ég held að þegar þessir byrjunarörðugleikar eru frá þá verðum við öll stolt af niðurstöðunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert