Skemmdarverk unnin á hinseginfánum

Bönd fánanna fyrir utan bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar voru skorin niður í …
Bönd fánanna fyrir utan bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar voru skorin niður í skjóli nætur. Ljósmynd/Hilmar Gunnarsson

Bönd níu hinseginfána sem prýddu bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar voru skorin í nótt og fánarnir skildir eftir á jörðinni. Þetta staðfestir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, í samtali við mbl.is. 

„Það voru níu fánar teknir niður fyrir framan bæjarskrifstofuna í nótt. Það var skorið á böndin og fánarnir sjálfir skildir eftir, ég get alveg staðfest það,“ segir Regína sem varð vör við verknaðinn er hún mætti til vinnu í morgun. 

„Við látum þetta ekki stoppa okkur“

Regínu segist þykja miður að skemmdarverkin hafi átt sér stað, en Mosfellsbær hyggst ekki láta neinn bilbug á sér finna og verður fánunum flaggað á ný í dag. 

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. Ljósmynd/Mosfellsbær

„Við munum flagga aftur og aftur, eins oft og þörf krefur. Við gefumst ekki upp og látum þetta ekki stoppa okkur,“ segir Regína sem telur mikilvægt að sýna hinseginfólki stuðning í verki. 

„Mér finnst mjög mikilvægt að styðja við þennan hóp. Það er ákveðið bakslag í baráttunni, þá sérstaklega varðandi trans fólk. Það er pláss fyrir okkur öll í samfélaginu og það er mikilvægt að sveitarfélög sýni stuðning í verki. Það skiptir máli fyrir fólk að sjá flaggað, að sjá regnbogagötur og að upplifa stuðning samfélagsins,“ segir Regína, en í gær var máluð regnbogagata fyrir framan Hlégarð, félagsheimili Mosfellinga. 

Málið rannsakað sem hatursglæpur

Málið er komið inn á borð lögreglu og verður rannsakað sem hatursglæpur. Regína segir gífurlega mikilvægt að lögreglan rannsaki málið til hlítar, en borið hefur á fleiri skemmdarverkum á hinseginfánum víðar í Mosfellsbæ. 

Regína segir Mosfellsbæ leggja mikið upp úr því að standa vörð um málefni hinseginfólks, þá sérstaklega í gegnum fræðslu. 

„Við verðum með hinseginfræðslu í skólum í haust og erum að taka þessi mál mjög föstum tökum. Við teljum að fræðsla og upplýsing skipti mjög miklu máli,“ segir Regína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert