COVID-greiningum fjölgar

Greiningum kórónuveirunnar hefur fjölgað lítillega undanfarið og eru nú um …
Greiningum kórónuveirunnar hefur fjölgað lítillega undanfarið og eru nú um 30 vikulega að sögn landlæknis. AFP/Fred Tanneau

Greiningum SARS-CoV-2-veirunnar, sem veldur COVID-19-sjúkdómnum, hefur fjölgað hérlendis undanfarið og hafa um 30 tilfelli á viku greinst undanfarið sem er væg fjölgun síðan fyrr í sumar. Frá þessu greinir embætti landlæknis á heimasíðu sinni.

Berast sóttvarnalækni tilkynningar um veirugreiningar frá rannsóknarstofum auk tölfræði  klínískra greininga frá heilbrigðisstofnunum en þær byggja gjarnan á hraðprófum utan sjúkrahúsa.

Ljóst er að einhverjir nota heimapróf til greiningar eða gera engin próf svo þessar tölur sýna ekki heildarmynd smitaðra. Sjúkrahús gera hins vegar rannsóknir á þeim sem hafa einkenni eða eru grunaðir um að vera sýktir svo flest greind tilfelli koma þaðan. Sóttvarnalæknir hefur ekki upplýsingar um fjölda innlagðra með COVID-19 en fram hefur komið í viðtölum við starfsfólk Landspítala og heilsugæslu að innlögðum og veikum utan spítala virðist hafa fjölgað þó tölur séu enn lágar miðað við það sem var sl. vetur þegar síðasta stóra bylgja smita gekk yfir,“ skrifar landlæknisembættið.

Færri lönd prófa

Í lok þarsíðustu viku, fyrstu vikunnar í ágúst, varð að sögn landlæknis einnig vart við aukinn fjölda tilkynningar í flestum aldursflokkum á ESB/EES-svæðinu samkvæmt tölfræði frá Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins, ECDC. Ekki hafi þó almennt orðið breyting á spítalainnlögnum eða andlátum. Þeim löndum hafi hins vegar fækkað sem gera prófanir og senda inn tilkynningar svo tölum þessum þarf samkvæmt landlækni að taka með fyrirvara.

Hvetur landlæknir fólk með einkenni, það er kvefeinkenni, hálssærindi, hósta, hita eða þreytu, til að nota heimapróf og halda sig sem mest til hlés til að smita ekki aðra. „Einstaklingar í áhættuhópum eða 60 ára og eldri ættu að hafa samband við sinn lækni ef þau telja sig hafa veikst af COVID-19, vegna mats m.t.t. möguleika á sértækri lyfjameðferð, og allir með einkenni sýkingar skyldu sýna sérstaka varúð í nánd við viðkvæma einstaklinga.“

Eldri og áhættuhópar verst úti

Segir landlæknir ljóst að veiran sé enn í dreifingu og hafi gengið í misstórum bylgjum síðustu tólf mánuði. Smittölur hérlendis séu lægri en þær voru síðasta sumar og mun lægri en veturinn þar á undan þegar omicron-bylgjan svokallaða skall fyrst á.

Sama á við á meginlandi Evrópu, þótt tíðni smita, innlagna og andláta gangi í bylgjum hefur tilhneigingin verið niður á við miðað við sem áður var. Áfram verða eldri einstaklingar og áhættuhópar verst úti og því verður mælt með örvunarbólusetningu þessara hópa í haust til að lágmarka alvarleg veikindi og dauðsföll vegna COVID-19 en búast má við auknum fjölda smita á flensutímanum í haust og vetur,“ segir að lokum í tilkynningu landlæknis sem boðar nánari upplýsingar um fyrirkomulag bólusetninga með haustinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert