Landris mælist í Torfajökulseldstöðinni

Gervitunglagögn (InSAR mynd) sem sýnir landris í Torfajökulseldstöðinni. Gul og …
Gervitunglagögn (InSAR mynd) sem sýnir landris í Torfajökulseldstöðinni. Gul og rauð svæði fyrir miðri mynd eru svæði þar sem landris mælist. Kort/Veðurstofa Íslands

Landris mælist í miðri Torfajökulsöskju og af gögnum að dæma hófst landrisið um miðjan júní. 

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að landrisið mælist nokkrir sentimetrar en sést bæði í InSAR og GPS gögnum. 

Þor­vald­ur Þórðar­son eld­fjalla­fræðing­ur sagði í samtali við Morgunblaðið í byrjun ágúst að það væri háal­var­legt mál ef eld­gos hæf­ist í Torfa­jök­ul­söskj­unni.

Kvika að safnast fyrir

Líklegasta túlkunin á þessu stigi er sú að ný kvika sé að safnast fyrir á dýpi og valda þenslu í eldstöðinni. Á næstu vikum verður lagt kapp á að greina gögnin frekar og reikna líkön til að skorða dýpi og umfang kvikunnar,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að engin marktæk breyting sé á jarðskjálftavirkni síðan að landrisið hófst. 

Síðast gaus í Torfajökli árið 1477 og nær eldstöðvakerfið yfir megineldstöð og sprungusveim (stefna NA-SV) og er um 40 km langt og 30 km breitt.

Í megineldstöðinni er askja, 18x12 km og þar er stærsta jarðhitasvæði Íslands, um 150 km2.

Kort úr Íslensku eldfjallavefsjánni sem sýnir Torfajökulseldstöðina.
Kort úr Íslensku eldfjallavefsjánni sem sýnir Torfajökulseldstöðina. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert