Jóhann Páll: Eins og Bjarni sjái ekki vandann

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni á Alþingi í kvöld að það væri óréttlátt að fólk sem glatað hefði starfsgetunni, veikst eða lent í slysi væri dæmt til ævilangrar fátæktar. Þannig eigi Ísland ekki að vera. 

Auk þess svaraði hann því sem fjármálaráðherra hafði sagt í ræðu fyrr um kvöldið.

Hann sagði Samfylkinguna vera skýra með það hver þau eru og hvað þau standa fyrir, hvað sé í forgangi og hvað ekki. 

„Það er efnahagur og öryggi fólks sem er númer eitt tvö og þrjú,“ sagði Jóhann Páll.

„Ég hef fréttir að færa, ráðherra“

Næst beindi Jóhann orðum sínum að Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, sem hafði í ræðu sinni fyrr um kvöldið hrósað velgengni Íslands í efnahagsmálum og sagt landið vera „á fullri ferð“.

„Hæstvirtur fjármálaráðherra sagði hér áðan að hann væri að vernda kaupmáttinn. En ég hef fréttir að færa, ráðherra: Kaupmáttur ráðstöfunartekna fer rýrnandi um þessar mundir,“ sagði Jóhann.

„Þetta er staðreynd og æ fleiri eiga erfitt með að ná endum saman. „Við erum á fullri ferð,“ sagði [Bjarni] og hreykti sér af því að við værum á fleygiferð, en þetta er vandinn. Það er eins og ráðherra sjái það ekki að ofþanið hagkerfi er vandinn sem veldur verðbólgu og vaxtahækkunum og bitnar á lífskjörum fólksins í landinu.“

Snýst um heimilisbókhaldið

„Við í Samfylkingunni gefum engan afslátt af kröfunni um samtryggingu og mannlega reisn. Við lítum ekki í hina áttina þegar börn með þroskafrávik eru látin bíða meira en ár eftir þjónustu í einu ríkasta samfélagi heims,“ sagði Jóhann. 

Þá leit þingmaðurinn beint í myndavélina og sagði að ef einhver ætti erfitt með að ná endum saman ætti hann að vita að Samfylkingin stæði með honum 

„Ef þú ert að sligast undan efnahagsóstjórninni í landinu, hækkandi verðbólgu og hækkandi vöxtum, þá skaltu vita að þingflokkur jafnaðarmanna vinnur fyrir þig. Þess vegna lögðum við til og fengum samþykkt hér í þingsal að vaxtabætur voru hækkaðar og víkkaðar út til fjögur þúsund heimila sem ellegar hefðu engan stuðning fengið. Því það er heimilisbókhaldið sem okkar pólitík snýst um, hvernig fólk hefur það frá degi til dags. Afkomuöryggi, húsnæðisöryggi, öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.“

Hann sagði að það þyrfti kjark til að afla tekna, styrkja grunninn, kjark til að brjóta upp fákeppni og klíkuræði og kjark til að taka stjórn á heilbrigðiskerfinu. „Og blása nýju lífi í velferðarþjónustuna svo allir, ekki bara sumir, búi við öryggi. Þannig á Ísland að vera og þangað skulum við stefna, stolt og glaðbeitt, áfram gakk,“ sagði Jóhann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert