Vill að Fjármálaeftirlitið úrskurði um hæfi Pálmars

Kristján Þórður Snæbjarnarson.
Kristján Þórður Snæbjarnarson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsam­bands Íslands (RSÍ), kveðst ekki hafa fengið viðbrögð frá Pálmari Óla Magnússyni, stjórnarformanni Birtu lífeyrissjóð, í kjölfar áskorunar miðstjórnar RSÍ til Pálmars um að víkja úr stjórninni.

Næsta skref sé að fá Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) til að úrskurða um hæfi Pálmars.

Kemur áskorunin til þar sem Pálmar hef­ur rétt­ar­stöðu sak­born­ings og í ljósi birt­ingu ákvörðunar Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins um brot Sam­skipa gegn banni við ólög­mætu sam­ráði, að er kom fram í tilkynningu RSÍ fyrr í dag.

Pálm­ar Óli var fram­kvæmda­stjóri milli­landa­sviðs Sam­skipa á þeim tíma sem ákvörðun Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins nær til.

FME hljóti að taka afstöðu 

– Hefur þú fengið viðbrögð frá Pálmari eða einhverjum úr stjórninni við áskoruninni?

„Nei ekki í dag, því miður. Maður hefði auðvitað viljað fá einhver viðbrögð við þessu og að hagsmunir lífeyrissjóðsins hefðu fengið að ráða för,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.

Í tilkynningu RSÍ kom einnig fram að RSÍ telji nauðsynlegt að gera breytingar á aðkomu atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða.

Pálmar segir að ef engin viðbrögð fáist sé næsta skref RSÍ halda áfram umræðu um aðkomu atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða og að fá Fjármálaeftirlitið til að úrskurða um hæfi Pálmars.

„Það sem maður auðvitað bíður líka eftir er að fjármálaeftirlitið úrskurði líka um hæfi hans, sökum þess að fjármálaeftirlitið getur líka gert athugasemdir um hæfi. Ég held að það hljóti að fara koma einhver afstaða þar. Það er næsta skref sem við munum kalla eftir,“ segir Kristján að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert