Sýna Ísrael stuðning og fordæma árásir Hamas

Formenn landsdeilda Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) hafa gefið frá sér …
Formenn landsdeilda Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) hafa gefið frá sér yfirlýsingu þar sem er fordæmt harðlega ólíðandi og ómannúðlegar árásir Hamas á Ísraelsku þjóðina. Ljósmynd/Lettneska sendinefndin

Formenn landsdeilda Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) hafa gefið frá sér yfirlýsingu þar sem er fordæmt harðlega ólíðandi og ómannúðlegar árásir Hamas á Ísraelsku þjóðina. Yfirlýsingin segir að Ísrael hafi fullan rétt á verjast árásunum innan ramma alþjóðalaga.

Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri-grænna, stýrði fundinum þar sem yfirlýsingin var ákveðin en hún var svo lesin upp fyrir Evrópuráðsþinginu. Í henni segir meðal annars:

„Formenn landsdeildanna krefjast þess að tafarlaus endir verði bundinn á árásirnar og ofbeldið og að saklausum gíslum verði sleppt úr haldi nú þegar.

Við vottum Ísraelsku þjóðinni samstöðu vegna árásanna, sem hún hefur fullan rétt á að verjast innan ramma alþjóðalaga. Þá hvetjum við til þess að áfram verði unnið að því að koma á stöðugleika til framtíðar. Einungis þannig getum við tryggt að Palestínumenn og Ísraelar geti búið við frið.“

Trúir því ekki að fólk ætli sér að réttlæta fjöldamorð

Bjarni Jónsson segir í samtali við mbl.is mikilvægt að fólk skilji að yfirlýsingin taki sérstaklega fram að viðbrögð Ísraela þurfi að vera innan ramma alþjóðalaga.

„Þetta eru bara hræðilegir atburðir þar sem er búið að drepa allt þetta fólk og svo erum við mögulega að fara horfa fram á hörmungar á hinn veginn. Þess vegna drögum við það sérstaklega fram að viðbrögð verða að vera innan ramma alþjóðalaga. Augljóslega er það ekki þannig ef það er verið að svelta fólk og það fær ekki vatn,“ segir Bjarni.

Hann kveðst hafa fundið fyrir smá gagnrýni vegna yfirlýsingarinnar og segist hann miður sín yfir því. Finnst honum hann hafa séð skrýtin viðbrögð um heim allan gagnvart þeim sem hafa viljað sýna samstöðu með þjóð sem varð fyrir fjöldamorði.

„Maður er eiginlega hálfmiður sín þar sem fólk er að rugla öllu saman. Líka þessu sem við settum inn [yfirlýsingin sem hann deildi á Facebook síðu sinni], ég trúi því ekki að fólk ætli sér að réttlæta fjöldamorð á fólki.“

Ísrael þarf að virða alþjóðalög

„Viðbrögðin þurfa að vera innan ramma alþjóðalaga því við höfum virkilega áhyggjur af því sem gæti gerst. Sérstaklega þar sem er verið að tala um innrás, loka fyrir rafmagn, mat og vatn. Það er augljóslega ekki innan ramma alþjóðalaga,“ segir Bjarni.

Hann segir að fundarmenn hafi verið sammála um að mikill ótti sé að því að ástandið fari enn frekar úr böndunum með mögulegu óhóflegu svari Ísraelsmanna.

„Við höfum gríðarlegar áhyggjur af þessu ástandi og hræðilegt að horfa upp á þessi fjöldamorð. Þetta eru búnar að vera ömurlegar aðstæður þarna til margra áratuga og meðferðin á Palestínumönnum af hálfu Ísraela, sem réttlætir auðvitað þetta ekki á neinn hátt.“

- Hvað meinarðu með því?

„Það er búið að reyna koma þarna friði lengi og sjálfstæðu ríki Palestínu,“ segir hann.

- Hefur Ísrael hafnað tveggja ríkja lausn?

„Það fer eftir því hver er í ríkisstjórn. Það þarf bara að fara klára þessi mál og ná farsælli lendingu með það. Það er kannski það sem við erum að vísa til og líka óttumst þær hörmungar sem gætu fylgt í kjölfarið. Það er samt ekki annað hægt en að lýsa yfir samstöðu vegna þess hryllings sem hefur átt sér stað.“

Samstaða um ályktunina

Hann segir mikla samstöðu hafa verið innan hópsins þrátt fyrir að fólk hafi skiptar skoðanir á því hversu djúpt í árina eigi að taka.

„Einhverjir hefðu kannski viljað vera harðari og einhverjir mildari. En það kom fram ósk um að álykta um málið og við ákváðum að sýna samstöðu vegna þessarar fjöldamorða.“

Bjarni Jónsson er fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Bjarni Jónsson er fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar Alþingis. mbl.is/Kristófer Liljar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert