Tveggja manna leitað norðan Mýrdalsjökuls

Björgunarsveitir Landsbjargar sinntu mörgum verkefnunm í gærkvöld og í nótt.
Björgunarsveitir Landsbjargar sinntu mörgum verkefnunm í gærkvöld og í nótt. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir Landsbjargar höfðu í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt vegna veðurs og þurftu sveitirnar að fara í nokkur útköll víðs vegar um landið.

Festu bílinn á kafi í snjó

Að sögn Jóns Þórs Víglundssonar upplýsingafulltrúa Landsbjargar var stærsta útkallið í nótt þar sem tveggja manna var leitað norðan Mýrdalsjökuls. Mennirnir höfðu ætlað austur á land og völdu að fara norðan jökla vegna vegalokana. Þegar þeir skiluðu sér ekki á áfangastað var farið að svipast um eftir þeim og þeir fundust í nótt þar sem þeir höfðu fest bíl á kafi í snjó við Brennivínskvísl norðan við Mýrdalsjökul. Bíllinn var losaður og menn voru komnir til byggða um fjögurleytið í nótt.

Festu dráttarbílinn

Björgunarsveitin í Bolungarvík var kölluð út í gærkvöldi og þurfti að sinna nokkrum verkefnum. Austur á Héraði þurfti að senda björgunarsveit upp í Brúardal. Þar voru fimm manns í tveimur bílum sem höfðu fest í snjó. Annar bíllinn sem festist var dráttarbíllinn sem hafði verið sendur eftir bílnum sem festist upphaflega.

Í Hveragerði var talsvert um foktjón og sömu sögu er að segja um Laugarvatn. Þar voru hjólhýsi sem voru farin að fjúka til og leggjast hvert á annað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert