Tekur niðurstöðuna alvarlega

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er ekki samkvæmt því sem ég tel vera, en úrskurðurinn segir það og ég tek hann alvarlega,“ segir sr. Agnes M. Sigurðardóttir biskup í samtali við Morgunblaðið þegar leitað er viðbragða hennar við úrskurði úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar um að umboð Agnesar til að gegna starfi biskups hafi runnið út 1. júlí í fyrra.

Agnes segist hafa bréf um að hún hafi haft umboð til starfsins, „þannig að ég gat ekki skilið bréfið öðruvísi en svo að ég hefði fullt umboð. Ég veit að það er ekki mat úrskurðarnefndarinnar og þess vegna verður að fá nánari skýringar á þessu,“ segir Agnes og bendir á að í yfirlýsingu frá sér sem birtist á vef þjóðkirkjunnar í fyrrakvöld komi fram að hún hyggist leita til dómstóla með það mál.

Spurð hvort hún muni víkja sæti þegar teknar séu ákvarðanir sem varða stjórnsýslu kirkjunnar og fela þær öðrum hvorum vígslubiskupanna svarar Agnes: „Það kann að vera.“

Lögmenn sem Morgunblaðið ræddi við segja málið fordæmalaust. Ari Karlsson lögmaður segist ekki sjá annað en niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sé bindandi innan þjóðkirkjunnar en það leiði samt af almennum reglum að biskup geti farið með lögmæti úrskurðarins og málsmeðferðina fyrir dómstóla.

„Almennt er ekki hægt að undanþiggja mál lögsögu dómstóla með einkaréttarlegum reglum eða gerningum. Og á endanum þurfa dómstólar að skera úr um þrætuna,“ segir Ari í viðtali við blaðið.

Agnes segist gera ráð fyrir að málið verði tekið fyrir á kirkjuþingi í lok október. Kirkjan sé að ganga í gegnum miklar breytingar og þess vegna hafi vafamál komið upp. Kirkjuþing hafi brugðist þeirri skyldu að setja reglur um starf biskups áður en skipunartíminn var úti. 

Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka