Fann hnífinn þegar hún var að tæma íbúðina

Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar lög­reglu.
Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar lög­reglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líklegt morðvopn í Drangahraunsmálinu fannst þegar dóttir hins látna var að tæma íbúð föður síns. Þetta staðfestir Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar lög­reglu, í samtali við mbl.is.

Um er að ræða hníf sem dóttir mannsins fann á heimili hans á þriðjudag, fjór­um mánuðum eft­ir að lög­regl­an skoðaði vett­vang­inn en fann ekkert morðvopn.

„Hún brást hárrétt við“

Aðspurður segir Grímur ekki gott að segja til um það hvort dóttur mannsins hafi strax verið ljóst að um væri að ræða morðvopnið. Hnífinn fann hún þegar hún var að tæma íbúðina á bak við „eitthvað dót“, segir Grímur sem gefur ekki upp hvar hnífurinn fannst.

„Hún finnur þarna hníf sem liggur ekki uppi á borðum og er kámugur, þannig að hún lætur vita. Sem er einmitt það sem hún átti að gera. Hún brást hárrétt við,“ segir hann.

Hnífurinn sendur til Svíþjóðar

Er hægt að staðfesta að hnífnum hafi ekki verið komið fyrir á heimili mannsins?

„Nei, það er ekki hægt að staðfesta það. Við erum svo sem ekki að bera neinar brigður á það, að þarna sé um að ræða hníf sem að tengist málinu. Það á bara eftir að koma í ljós,“ segir Grímur.

Hann segir rannsókn tæknideildar lögreglunnar hafa upplýst að um væri að ræða blóð úr einstaklingi. Því hafi hnífurinn verði sendur til Svíþjóðar til að greina blóðið með tilliti til þess hvort um sé að ræða blóð úr hinum látna. Aðspurður segir Grímur að honum þyki það líkleg niðurstaða.

Málið ekki veikara

Hvernig yfirsást ykkur hnífinn, var hann falinn?

„Já, hann var falinn, settur á bak við eitthvað dót. En hann bara finnst ekki við húsleit og það er auðvitað eitthvað sem hefði ekki átt að gerast. Hann hefði átt að finnast,“ segir Grímur.

Veikir þetta málið?

„Málið er hjá héraðssaksóknara og saksóknari þar sem fer með málið. Að mínu mati þá liggur fyrir að maðurinn hafi verið stunginn og þetta voru stungur sem drógu hann til dauða. Að mínu mati er málið ekki neitt veikara, en eins og ég segi þá hefðum við samt sem áður átt að finna þennan hníf við húsleit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert