Bað félaga sinn um að hringja á sjúkrabíl

Maciej Jakub Tali var dæmdur í sextán ára fangelsi í …
Maciej Jakub Tali var dæmdur í sextán ára fangelsi í gær. mbl.is

Maciej Jakub Tali, sem stakk meðleigjanda sinn til bana 17. júní í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði, hringdi fjölmörg símtöl í vini og systur sína eftir að hafa framið verknaðinn.

Þá hafði hann einnig sent skilaboð á vin sinn í aðdraganda manndrápsins þar sem hann sagðist ætla að drepa meðleigjanda sinn, Jaroslaw Kam­insk.

Maciej Jakub var ákærður fyrir að hafa stungið Jaroslaw fimm sinnum með hnífi í höfuð, háls og búk.

Jaroslaw lést úr áverkum sínum og var Maciej dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir manndrápið í gærÞetta kemur fram í skýrslum lögreglu sem greint er frá í dóminum sem féll.

Atburðarás óljós

Lögreglu barst tilkynning um málið frá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra klukkan 05.35 um morguninn. Í tilkynningunni var greint frá blóðugum aðila og hníf. Þá kom einnig fram að uppi væru tungumálaörðugleikar og atburðarás óljós.

Í skýrslu lögreglu segir að fleiri hafi verið á vettvangi þegar lögreglu bar að garði, þar á meðal félagi Maciej sem kvaðst hafa fengið símtal frá honum um að hann hefði stungið vin sinn. Beindi félaginn lögregluþjónum að hinum látna.

Alblóðugur og í sjáanlegu uppnámi

Hinn látni lá alblóðugur í jörðinni án meðvitundar, ekki með púls og gat ekki andað. Var hann í nærbuxum einum klæða, frekar kaldur viðkomu og hélt um háls sinn með vinstri hönd.

Lögregla hóf endurlífgunartilraunir klukkan 05.51 og þegar sjúkralið kom á vettvang hélt það tilraununum áfram en án árangurs.

Maciej Jakub var enn á vettvangi, alblóðugur og í sjáanlegu uppnámi. Var hann handtekinn og kynnt réttarstaða sakbornings. Var hann í svörtum stuttermabol sem var rifinn við handarkrika öðrum megin.

Hann var fluttur á lögreglustöð og virkaði í losti og tjáði sig mjög lítið. Í fangamóttökunni spurði hann hvort vinur sinn væri dáinn og fór að gráta.

Blóð inni í íbúðinni

Jaroslaw lá til hliðar við dyr iðnaðarhúsnæðisins sem hann og Maciej Jakub deildu íbúð í. Húsnæðið er á tveimur hæðum og er búið að skipta því upp í þrjár íbúðir til útleigu, tvær á jarðhæð og ein á efri hæð.

Jaroslaw og Maciej Jakub áttu heima saman í íbúð á jarðhæð.

Töluvert blóð mátti sjá inni í íbúðinni, bæði blóðdropa víða á gólfi og blóðkám á gólfi og veggjum.

Samkvæmt skýrslu lögreglu sem greint er frá í dóminum fór tæknideild lögreglu aftur á vettvang klukkan níu sama kvöld og ætlaði Maciej Jakub að vísa á ætlað morðvopn. Er hann gekk fram hjá eldhúsinu fór hann að eldhúsborðinu, tók upp hníf sem hafði legið ofan á diski og sagði það vera vopnið.

Var hnífurinn haldlagður en rannsókn leiddi í ljós að ekkert mennskt blóð væri á honum.

Annar hnífur til skoðunar

Tæknideildin fór aftur á vettavang 20. júní og leitaði að vopninu. Einn hnífur var haldlagður en rannsókn leiddi ekkert markvert í ljós. Buxur og blóðugur bolur voru einnig haldlögð í sömu ferð. Fjölmörg göt voru bæði á framhlið og bakhlið hans. Á framhlið voru níu göt, sex í þyrpingu í brjósthæð vinstra megin.

Þá voru rauðleitir blettir sjáanlegir á neðri hluta beggja skálma gallabuxnanna. Útlit bletta á báðum skálmum bendir til þess að þeir hafi komið ofan frá og fallið niður á buxurnar.

Eins og greint hefur verið frá áður fannst morðvopnið ekki fyrr en dóttir hins látna fann það fyrir tilviljun í íbúð föður síns í október þegar hún ætlaði að sækja þar muni. Hafði hnífurinn legið við vegg skammt frá svefnherbergi föður hennar

Sendi skilaboð á félaga sinn

Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu, sem greint er frá í dómnum, sáust Jaroslaw og Maciej Jakub fara saman á ónafngreindan stað klukkan 00.52 um nóttina. Jaroslaw fór af staðnum einn síns liðs klukkutíma síðar, eða klukkan 01.51 og Maciej Jakub fór átta mínútum á eftir honum, einnig einn síns liðs.

Voru Jaroslaw og Maciej báðir ölvaðir.

Hringdi Maciej Jakub þrisvar sinnum í Jaroslaw frá klukkan 02.01 og til 02.06. Engu símtali var svarað.

„Ykkar mál skipta [mig] engu máli“

Í upplýsingaskýrslu lögreglu er greint frá því að Maciej Jakub hafi sent skilaboð klukkan 00.29 sama kvöld á pólsku í gegnum Messenger á ónafngreindan vin sinn sem hljóðuðu svo: „Drep hann. Eftir smá stund. Er ekki að grínast.“

Klukkan 04.54 sendir hann önnur skilaboð á sama aðila: „Þessi vitleysingur fyrst drep ég hann og svo hengi ég mig.“

Klukkan 05.10 sendir hann aftur skilaboð: „Ég stakk hann með hníf.“ Stuttu síðar sendi hann önnur skilaboð: „Svaraðu“.

Vinurinn svarar þá: „Nei“ og fylgdi með pólskt blótsyrði. Segir hann því næst: „Ykkar mál skipta [mig] engu máli.“

Maciej Jakub bað viðkomandi þá um að hringja á sjúkrabíl.

Vinurinn tók ekki vel í það, benti Maciej Jakub á að númerið væri 112.  „Hringdu sjálfur og ekki pirra mig ef þetta er satt,“ svaraði hann meðal annars.

Maciej Jakub bað viðkomandi þá aftur um að hringja í sjúkrabíl. Hann væri allur út í blóði.

Þeir héldu áfram að þræta áður og að lokum spjallað í þrjár mínútur í gegnum myndsímtal, tvær mínútur í gegnum annað myndsímtal, og að lokum tekið tólf sekúndna símtal.

Símtalaskrá Maciej Jakub sýndi einnig samskipti við fjóra aðra einstaklinga um morguninn, m.a. systur sína. Alls fimmtán símtöl frá klukkan 05.22 til 05.57.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert