Vill banna uppsagnir í meðferð við tæknifrjóvgun

Ingibjörg Isaksen vill tryggja atvinnuöryggi þeirra sem gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferðir.
Ingibjörg Isaksen vill tryggja atvinnuöryggi þeirra sem gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Vill hún bæta við vernd gegn uppsögnum á meðan fólk gengst undir tæknifrjóvgunarmeðferðir.

Í núgildandi lögum er óheimilt að segja starfsmanni upp á grundvelli þess að hann sé í eða hafi tilkynnt um fyrirhugað foreldraorlof. Með frumvarpinu stendur til að bæta við að gangist fólk undir tæknifrjóvgunarmeðferðir nái lagaákvæði þessi einnig til þeirra. Uppsagnir starfsmanna sem eru í tæknifrjóvgunarmeðferð þurfi að rökstyðja skriflega og gildar ástæður þurfi að vera fyrir hendi.

„Þessi tillaga ætti að vera sjálfsögð og liður í því að auka réttindi ákveðins hóps til jafns við aðra. Þetta eru einstaklingar sem þurfa að leita sér aðstoðar við að verða barnshafandi," segir Ingibjörg í samtali við mbl.is.

Hún vill beita sér fyrir því að konur sem þurfi að leita sér aðstoðar við barneignir séu einnig tryggðar á meðan á tæknifrjóvgunarferli stendur. „Þetta getur verið þungt og flókið ferli. Álagið bætist enn frekar á ef starfsmanni er sagt upp,“ segir Ingibjörg. 

Meðferð þarf að vera formlega hafin

Hún tekur þó fram að ekki standi til að banna uppsagnir fólks á meðan það lætur geyma fósturvísa, sem hægt er að gera árum saman. Meðferð þurfi að vera formlega hafin. Verndin gildi frá því að vinnuveitanda sé tilkynnt um meðferðina. Hún falli úr gildi heppnist meðferðin ekki eða, ef hún heppnast, þar til barnið er fætt. 

Aðspurð hvort hún telji þetta vera algengt vandamál, að konum sé sagt upp meðan þær sæki sér slíkar meðferðir, segist Ingibjörg ekki vita það. Hún hafi þó heyrt þess dæmi. „Mér þykir miður að konur sem verða að fara þessa leið geti ekki búið við atvinnuöryggi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert