Sala á hitablásurum og olíufylltum rafmagnsofnum hefur stóraukist í Reykjanesbæ síðustu daga. Fyrir helgi seldust þessar vörur upp í verslun Byko og Húsasmiðjan sankar nú að sér meiri birgðum vegna aukinnar eftirspurnar.
Það er því ljóst að fólk er að gera ráðstafanir vegna þess eldgoss sem vofa þykir yfir í grennd við virkjunina í Svartsengi sem gæti stefnt hitaveitu í hættu.
Virkjunin í Svartsengi skaffar um 31 þúsund manns heitu vatni á Suðurnesjum.
Gunnur Magnúsdóttir, verslunarstjóri Byko í Reykjanesbæ, segir í samtali við mbl.is að olíufylltir rafmagnsofnar og hitablásarar hafi selst upp fyrir helgi í verslun Byko í Reykjanesbæ vegna aukinnar eftirspurnar.
„Við erum komin með nýja sendingu sem var að berast í hús,“ segir hún um olífylltu rafmagnsofnanna og hitablásarana. Bætir hún því við að gashitarar fari einnig fljótlega að koma í verslunina.
„Fólki finnst auðvitað smá óraunverulegt að vera tala um að þetta geti gerst, en fólk vill frekar hafa vaðið fyrir neðan sig,“ segir Gunnur.
Gísli Hlynur Jóhanns, rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar í Reykjanesbæ, segir í samtali við mbl.is að sala á hitunartækjum hafi byrjað að aukast verulega á föstudaginn.
„Við erum að selja olíufyllta rafmagnsofna og hitablásara – Það er alveg roksala á þessu,“ segir Gísli.
Hann segir að verslunin sé búin að sanka að sér aukabirgðum til að halda í við eftirspurn.