2,5-3 milljarðar: Svona yrðu varnargarðarnir

Teikningar sýna hvernig varnargarðarnir eiga að ná utan um virkjunina …
Teikningar sýna hvernig varnargarðarnir eiga að ná utan um virkjunina í Svartsengi. Bílastæðið við Bláa lónið yrði utangarðs. Samsett mynd

Framkvæmdir við varnargarða í kringum Svartsengi yrðu umfangsmiklar, komi til þess að þeir verði reistir.

Garðarnir yrðu um sex til átta metra háir og myndu fylgja efstu línum í landslagi norðan og vestan við Svartsengi. Í heildina yrðu þeir um fjórir kílómetrar, miðað við áætlanir.

Frá þessu greinir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Svartsengi sveipað rökkurhúmi. Undir niðri krauma kraftar og ógna þeirri …
Svartsengi sveipað rökkurhúmi. Undir niðri krauma kraftar og ógna þeirri virkjun sem annars hefur beislað þá í áratugi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil mannvirki

„Búið er að stika út og velja stæði fyrir varnargarða ef til þess kæmi að þeir yrðu reistir,“ segir Víðir og bætir við að sú vinna hafi verið gerð í samstarfi við verktaka.

Einnig hafi verið farið yfir hvaða tæki og búnaður sé á lausu, komi til þess að fara þurfi í slíka vinnu með litlum fyrirvara.

„Þetta eru talsvert mikil mannvirki sem mun taka talsverðan tíma að koma upp en við höfum forgangsraðað því hvar ætti að byrja, ef ákveðið verður að fara í framkvæmdina. Þeir ættu því að gagnast strax ef til goss kæmi,“ segir Víðir.

Svona gætu hugsanlegir varnargarðar við Svartsengi litið út.
Svona gætu hugsanlegir varnargarðar við Svartsengi litið út. Teikning/Verkís

Bílastæði Bláa lónsins yrði utangarðs

Heildartíma við að setja upp varnargarða telur Víðir 45 daga en mun skemmri tíma tæki að koma upp ákveðnum grunni sem strax myndi gagnast við að stöðva hraunflæði.

„Það sem við köllum neyðaraðgerðir yrði þá mun markvissara og gengi hraðar fyrir sig,“ bendir hann á.

Séu garðarnir hugsaðir sem vörn gegn hraunflæði goss sem upp kæmi norðan og vestan við Svartsengi og eins í fjöllunum fyrir ofan þar sem umbrot hafi verið áður. Aðspurður segir Víðir Bláa lónið liggja það ofarlega í landinu að garðarnir myndu sneiða rétt norðan við byggingar lónsins og svo nálægt þeim að bílastæði lónsins yrði utangarðs.

Rauð lína á kortinu sýnir hvernig varnargarður gæti legið umhverfis …
Rauð lína á kortinu sýnir hvernig varnargarður gæti legið umhverfis Svartsengi og Bláa lónið. Teikning/Verkís

„Gríðarlegur miðjupunktur í öllu kerfinu“

„Við erum bara að skoða hvort ekki sé full ástæða til að hefja framkvæmdir jafnvel þótt þessi hrina hætti,“ segir Víðir.

„Ráðleggingar vísindamanna eru að búa okkur undir langvarandi tímabil jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesi og þessi garður yrði ekki bara byggður fyrir þá sviðsmynd sem við erum að horfa á núna, hann væri byggður fyrir hluta af öllum þeim sviðsmyndum sem hafa verið settar upp fyrir eldgos og hraunrennsli á þessu svæði.“

Aðspurður segir hann að framkvæmdir við garðana myndu kosta á bilinu tvo og hálfan til þrjá milljarða.

„Hann væri byggður til langs tíma og það er full ástæða til að taka það alvarlega að virkjunin á Svartsengi er gríðarlegur miðjupunktur í öllu kerfinu, fyrir utan alla aðra starfsemi sem þar er. Við erum fyrst og fremst að horfa á virkjunina og verðmætin þar eru gríðarlega mikil – fyrst og fremst í virkjuninni sjálfri og öllu sem henni fylgir, en einnig í þeirri þjónustu sem þaðan er veitt, bæði á köldu vatni, heitu vatni og rafmagni.“

Framkvæmdir við garðana myndu kosta á bilinu 2,5 til 3 …
Framkvæmdir við garðana myndu kosta á bilinu 2,5 til 3 milljarða króna. Teikning/Verkís

Hefur áhrif á alla íbúa Suðurnesja

Víðir segir rýmingaráætlanir hafa verið yfirfarnar síðustu daga og íbúafundurinn í Reykjanesbæ í kvöld sé því kærkomið tækifæri til upplýsingamiðlunar.

„Það sem við erum að horfa á núna hefur auðvitað áhrif á alla íbúa á Suðurnesjunum svo það er full ástæða til að halda íbúafundi og gefa fólki tækifæri til að spyrja og fá upplýsingar beint til sín, það skiptir miklu máli.“ 

Upplýsingafundurinn hefst klukkan 20 í kvöld og verður í beinu streymi hér á mbl.is.

Víðir Reynisson á upplýsingafundi almannavarna fyrr í vikunni.
Víðir Reynisson á upplýsingafundi almannavarna fyrr í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skoða kaup eða leigu á búnaði erlendis

Segir Víðir, spurður um stöðu mála jarðfræðilega, að ekki hafi dregið úr hættunni á eldgosi. Kvikuinnstreymi og landris sé enn til staðar og mikil vinna í gangi á öllum sviðum viðbragðsaðila. 

„Það sem við vorum búin að undirbúa er að verða tilbúið og okkur finnst kerfið bara vera nokkuð vel statt, bæði til að bregðast við gosi í líkingu við það sem við höfum séð áður og líka til að bregðast við gosi með þá sviðsmynd að það hafi meiri áhrif á innviðina eins og í Svartsengi,“ heldur yfirlögregluþjónninn áfram.

Segir hann veitufyrirtækin og Orkustofnun hafa lagt á sig mikla vinnu til að afla búnaðar til að hita vatn ef hitaveitan yrði óstarfhæf. 

„Nú er búið að finna til þann búnað sem til er á Íslandi, hann dugar náttúrulega ekki alveg svo verið er að skoða kaup eða leigu á búnaði frá öðrum löndum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert